Væntingarnar minni en á síðasta stórmóti

Heim / Fréttir / Væntingarnar minni en á síðasta stórmóti

Landsmenn höfðu nokkuð minni væntingar til karlalandsliðsins í handbolta á EM í ár heldur en á HM í fyrra. Fyrir mótið í ár höfðu rúm 37% miklar væntingar til liðsins en tæp 58% árið á undan. Þá höfðu rúm 11% litlar væntingar til liðsins í ár og 13% engar væntingar en til samanburðar höfðu rúm 3% í fyrra litlar væntingar og rúm 9% engar.

Hlutfall þeirra sem spáðu Íslandi verðlaunasæti (1-3. sæti) var nú tæp 17% samanborið við 40% árið á undan. Spáðu nú um 36% Íslandi 4-6. sæti, 23% 7-9. sæti, 13% 10-12. sæti og 12% 13-24. sæti.

Þá ætlaði fjórðungur þjóðarinnar ekki að horfa á neinn af leikjum landsliðsins á EM í ár en 21% ætluðu að horfa á alla leikina. Þá ætluðu 26% sér að horfa á flesta leiki Íslands og 28% á suma þeirra.

Konur (39%) voru ívið líklegri en karlar (tæp 36%) til að bera miklar væntingar til liðsins í ár en karlar (tæp 25%) voru aftur á móti líklegri en konur (tæp 18%) til að ætla að horfa á alla leikina. Fólk 60 ára og eldri var jafnframt líklegra en yngri aldurshópar til að bera miklar væntingar til liðsins en kváðust 45% þeirra hafa miklar væntingar og 38% í meðallagi.

Ítarlegri niðurstöður er að finna í pdf-skýrslu hér.

Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 1.011, en þeir eru alls staðar að af landinu 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 10. til 15. janúar 2024.

Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.

Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.

Aðrar fréttir