Katrín í broddi fylkingar

Heim / Fréttir / Katrín í broddi fylkingar

Ný könnun Maskínu sýnir að Katrín Jakobsdóttir hefur mest fylgi allra frambjóðenda og er munurinn á henni og fylgi Baldurs Þórhallssonar marktækur. Jón Gnarr kemur á hæla Baldurs en hástökkvarinn frá síðustu könnun er Halla Hrund Logadóttir. Hún mælist nú með ríflega 10% fylgi og bætir því við sig um 5 prósentustigum á milli mælinga. Ekki er marktækur munur á fylgi Baldurs og Jóns og því forvitnilegt fylgjast með framvindu mála á næstu dögum og vikum.

Finna má skýrslu með ítarlegum niðurstöðum hér.

Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 1.020, en þeir eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 12. til 16. apríl 2024.

Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.

Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.

 

Aðrar fréttir