Í fyrri hluta janúar spurði Maskína um álit þjóðarinnar á Áramótaskaupinu og var það þrettánda árið í röð sem Maskína gerir þessa mælingu. Aðspurð sögðu 57% Skaupið 2023 hafa verið gott og þar af töldu rúm 23% það hafa verið mjög gott. Þá fannst tæpum 21% Skaupið hafa verið slakt, þar af fannst rétt rúmum 9% það mjög slakt.
Hlutfall þeirra sem fannst Skaupið 2023 gott (57%) var nokkuð lægra en hlutfall þeirra fannst Skaup ársins 2022 gott (89%), en það var einmitt hæsta hlutfall sem Maskína hefur mælt á þessum þrettán árum!
Konur voru nokkuð líklegri en karlar til að finnast Skaup ársins 2023 gott eða milli 61-62% kvenna samanborið við tæp 54% karla. Þá höfðaði Skaupið nokkuð jafnt til allra aldurshópa en þó ívið betur til 18-29 ára og 40-49 ára heldur en annarra. Þegar litið er til landshluta sést að Skaupið féll best í kramið hjá íbúum Norðurlands en milli 66-67% íbúa þar fannst Skaupið gott, samanborið við 52-60% íbúa annarra landshluta.
Ítarlegri niðurstöður er að finna í pdf-skýrslu hér.
Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 1.011 sem tóku afstöðu, en þeir eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 10. til 15. janúar 2024.
Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.
Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.
Mynd: ruv.is