Skiptar skoðanir á sölu áfengis í matvöruverslunum

Heim / Fréttir / Skiptar skoðanir á sölu áfengis í matvöruverslunum

Fleiri Íslendingar eru hlynntir en andvígir sölu á bjór og léttvíni í matvöruverslunum. Aldrei hafa fleiri verið hlynntir sölu á bjór í matvöruverslunum frá því að Maskína hóf mælingar á þessu árið 2014.Rúmlega 44% eru hlynnt sölu léttvíns í matvöruverslunum og um 42% andvíg (það sem á vantar 100% eru þeir sem eru beggja blands). Afstaða til sölu á bjór í matvöruverslunum er mjög svipuð afstöðu til sölu á léttvíni. Á bilinu 44-45% er hlynnt sölu á bjór og um 41% er andvígt. Töluvert meiri andstaða er gegn sölu á sterku víni í matvöruverslunum. Tæplega 17% Íslendinga eru hlynnt sölu á sterku víni í matvöruverslunum en á milli 67% og 68% er andvíg því.

Í öllum tilfellum eru karlar hlynntari sölu áfengis í matvöruverslunum en konur. Kynjamunurinn er sterkastur í viðhorfi til sölu á sterku víni. Tæplega 11% kvenna eru hlynnt því, en á bilinu 22-23% karla.

Því yngri sem svarendur eru þeim mun hlynntari eru þeir sölu á áfengi í matvöruverslunum. Þeir sem eru á aldrinum 18 til 29 ára eru í öllum tilfellum hlynntastir sölunni, en þeir sem eru 60 ára og eldri eru í öllum tilfellum andvígastir.

Svarendur voru 824 talsins, koma úr Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem er dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Svarendur eru af báðum kynjum, alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 14. til 27. maí 2019.

Skýrsluna í PDF formi má nálgast hér.

Aðrar fréttir