Mikil ánægja með frammistöðu Hatara í Eurovision

Heim / Fréttir / Mikil ánægja með frammistöðu Hatara í Eurovision

Hartnær þrír af hverjum fjórum Íslendingum voru ánægðir með frammistöðu Hatara í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva (Eurovision) 2019. Um 11% voru óánægð með frammistöðu hljómsveitarinnar og um 15% í meðallagi.

Konur voru ánægðari með frammistöðu Hatara en karlar. Næstum 80% kvenna voru ánægð samanborið við um 69% karla. Ungt fólk var almennt ánægðara með frammistöðu hljómsveitarinnar en eldra. Fólk á aldrinum 18 til 29 ára var ánægðast (87,7%) en 60 ára og eldri var síst ánægt (57,2%).

Háskólamenntaðir Íslendingar voru ánægðari með frammistöðu Hatara en þeir sem lokið hafa grunnskólaprófi eða framhaldsskólaprófi/iðnmenntun. Tæplega 79% háskólamenntaðra voru ánægð með frammistöðu hljómsveitarinnar, en um 67% þeirra sem lokið hafa grunnskólaprófi og ríflega 70% þeirra sem hafa lokið framhaldsskólaprófi/iðnmenntun voru ánægð.

Meirihluti Íslendinga (84,4%) horfði á úrslitakvöld Eurovision. Þeir sem horfðu ekki voru mun líklegri til þess að vera óánægðir með frammistöðu hljómsveitarinnar. Tæplega 54% þeirra sem horfðu ekki á úrslitakvöldið voru ánægð með frammistöðu Hatara og 16% óánægð.

Þeir sem myndu kjósa Pírata ef kosið yrði til Alþingis í dag voru ánægðastir með frammistöðu Hatara (89,2%) og þeir sem myndu kjósa Miðflokkinn síst ánægðir (45,8%).

Svarendur voru 837 talsins, koma úr Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem er dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Svarendur eru af báðum kynjum, alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 21. maí til 4. júní 2019.

Skýrsluna í PDF formi má nálgast hér.

Aðrar fréttir