Fleiri andvígir en hlynntir inngöngu Íslands í Evrópusambandið (ESB)

Heim / Fréttir / Fleiri andvígir en hlynntir inngöngu Íslands í Evrópusambandið (ESB)

Fleiri Íslendingar eru andvígir en hlynntir inngöngu Íslands í ESB. Slétt 43% Íslendinga eru andvíg og á bilinu 31-32% eru hlynnt því að Ísland gangi í ESB. Nokkuð fleiri eru hlynntir inngöngu nú en árið 2013, en þá voru milli 28% og 29% hlynnt því að Ísland gengi í það. Auk þess var tæplega 51% andvígt inngöngu árið 2013.

Háskólamenntaðir eru hlynntari en aðrir að Ísland gangi í ESB, en 41% háskólamenntaðra er hlynnt inngöngu í ESB en milli 14% og 15% þeirra sem eru með grunnskólapróf eru hlynnt og á bilinu 28-29% þeirra sem eru með framhaldsskólapróf/iðnmenntun.

Íbúar á höfuðborgarsvæðinu eru almennt hlynntari því að Ísland gangi í ESB en landsbyggðarbúar. Reykvíkingar eru hlynntastir inngöngu (40,8%) og Austfirðingar andvígastir (61,4%).

Skoðun á inngöngu Íslands í ESB er mjög breytilegt eftir því hvaða flokk myndi kjósa ef kosið yrði til Alþingis í dag. Þeir sem myndu kjósa Viðreisn eru hlynntastir inngöngu í ESB (76,5%) og fylgja kjósendur Samfylkingarinnar þar á eftir (73,4%). Kjósendur Framsóknarflokksins eru andvígastir inngöngu (84,3%) og kjósendur Sjálfstæðisflokksins þar á eftir (78,4%).

Þrátt fyrir að fleiri séu andvígir en hlynntir inngöngu Íslands í ESB þá telja tæplega 55% Íslendinga að Ísland gæti náð hagstæðum samningi við það.

Reykvíkingar hafa mesta trú á því að Ísland gæti náð hagstæðum samningi við ESB (64,2%) en flestir Austfirðingar telja að Ísland gæti ekki náð hagstæðum samningi (60,2%).

Háskólamenntaðir hafa meiri trú en aðrir á því að Ísland gæti náð hagstæðum samningi við ESB (63,5%).

Af þeim sem eru andvígir því að Ísland gangi í ESB telja tæplega 12% þeirra að Ísland gæti náð hagstæðum samning við það.

Svarendur voru 830 talsins, koma úr Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem er dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Svarendur eru af báðum kynjum, alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 12. til 26. mars 2019.

Skýrsluna í PDF formi má nálgast hér.

Aðrar fréttir