Fleiri ánægðir en óánægðir með niðurstöðu kjaraviðræðna

Heim / Fréttir / Fleiri ánægðir en óánægðir með niðurstöðu kjaraviðræðna

Rúmlega 62% Íslendinga fannst verkalýðshreyfingin standa sig vel í nýafstöðun kjaraviðræðum Starfsgreinasambandsins, LÍV, VR og Samtaka atvinnulífsins. Tæplega 39% fannst atvinnurekendur standa sig vel og 44% voru ánægðir með aðkomu ríkisstjórnarinnar að kjaraviðræðunum.

Eldra fólki þótti verkalýðshreyfingin standa sig töluvert betur en yngri kynslóðinni þótti. Á milli 42% og 43% fólks á aldrinum 18 til 29 ára fannst verkalýðshreyfingin standa sig vel, en á milli 80% og 81% 60 ára og eldri. Það sama má segja með frammistöðu atvinnurekenda og aðkomu ríkisstjórnarinnar. Tæplega 30% 18 til 29 ára fannst atvinnurekendur standa sig vel en naumlega 52% þeirra sem eru 60 ára og eldri. Á milli 28% og 29% þeirra sem eru 18 til 29 ára voru ánægð með aðkomu ríkisstjórnarinnar en rúmlega 57% þeirra sem eru 60 ára og eldri. Því þótti eldra fólki samningsaðilar standa sig almennt mun betur en yngra fólki.

Á bilinu 48-49% Íslendinga fannst verkalýðshreyfingin ná miklum árangri í nýjum kjarasamningum, en 37% fannst atvinnurekendur ná miklum árangri. Líkt og með frammistöðu samningsaðila, fannst eldri kynslóðinni bæði verkalýðshreyfingin og atvinnurekendur ná meiri árangri en yngri kynslóðin. Slétt 33% fólks á aldrinum 18 til 29 ára fannst verkalýðshreyfingin ná miklum árangri en 61% þeirra sem eru 60 ára og eldri. Á bilinu 26-27% þeirra sem eru 18 til 29 ára fannst atvinnurekendur ná miklum árangri í nýjum kjarasamningum en 43% þeirra sem eru 60 ára og eldri. Eldra fólk var því almennt ánægðara með nýja kjarasamninga en það yngra.

Fleiri háskólamenntaðir voru ánægðir með árangur verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda í nýjum kjarasamningum en þeir sem eru með grunnskólapróf og framhaldsskólapróf/iðnmenntun. Tæplega 54% háskólamenntaðra fannst verkalýðshreyfingin ná miklum árangri og 41% fannst atvinnurekendur ná miklum árangri.

Þeir sem sögðu að þeir hefðu fylgst mikið með kjaraviðræðunum þótti bæði verkalýðshreyfingin og atvinnurekendur ná betri árangri en þeir sem fylgdust í meðallagi eða lítið/alls ekkert með kjaraviðræðunum. Rúmlega 55% þeirra sem fylgdust mikið með fannst verkalýðshreyfingin hafa náð miklum árangri í nýjum kjarasamningum en mun færri voru á þeirri skoðun á meðal þeirra sem fylgist lítið eða alls ekkert með kjaraviðræðunum (28,5%). Það sama má segja með árangur atvinnurekenda. Milli 48% og 49% þeirra sem fylgdust mikið með fannst atvinnurekendur hafa náð miklum árangri í nýjum kjarasamningum, en á bilinu 14-15% þeirra sem fylgdust lítið eða ekkert með.

Svarendur voru 840 talsins, koma úr Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem er dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Svarendur eru af báðum kynjum, alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 5. til 22. apríl 2019.

Skýrsluna í PDF formi má nálgast hér.

Aðrar fréttir