Niðurstöður kosninga og kannana Maskínu

Heim / Fréttir / Niðurstöður kosninga og kannana Maskínu

Þá liggja niðurstöður forsetakosninga fyrir. Maskína óskar Höllu Tómasdóttur hjartanlega til hamingju með glæsilega kosningu.

Ljóst er að kannanir Maskínu sýndu mjög vel niðurstöðuna sem birtist á kjördag. Maskína gerði 9 kannanir fyrir kosningar á tímabilinu frá 8. apríl til 31. maí. Söfnun svara lauk að kvöldi 31. maí, kvöldi fyrir kjördag, og var því tekin ákvörðun um að birta þær niðurstöður ekki þar sem ekki þótti við hæfi að birta niðurstöður á kjördag, þar sem slíkt hefur ekki tíðkast á Íslandi.

Halla Tómasdóttir var í fyrstu fimm könnunum Maskínu með 4-7% en síðan reis fylgi hennar hratt eftir því sem leið á kostningabaráttuna. Frá 8. maí og fram að síðustu könnun, degi fyrir kjördag, hækkaði fylgi Höllu Tómasdóttur um 25 prósentustig og var í síðustu könnuninni 30,2%.

Maskína mældi fylgi Katrínar Jakobsdóttur mest í byrjun þegar það var um þriðjungur. Það dróst svo fljótlega nokkuð saman og allan maí naut Katrín á bilinu 24-27% stuðnings samkvæmt könnunum Maskínu. Daginn fyrir kjördag var fylgi Katrínar 23%.

Halla Hrund byrjaði hægt en reis hátt á tímabili, og mældist hæst með um 30% fylgi. Fylgi hennar var farið dala nokkuð þegar leið að kosningum og mældist hún með 18% í síðustu könnun Maskínu.

Baldur Þórhallsson var með tæplega 27% fylgi í fyrstu könnun en fylgið dalaði hægt og sígandi og endaði í 12% þann 31. maí.

Jón Gnarr hafði í fyrstu tveimur könnunum nálægt fimmtungs fylgi en fór fljótlega í 10-12% og endaði í tæplega 10% í síðustu könnuninni.

Aðrir frambjóðendur fengu innan við 10%.

Á meðfylgjandi mynd má sjá að sú hreyfing sem greina má á fylginu samkvæmt könnunum Maskínu raungerðist í kosningum. Það er vert að minna á að kannanir eru ekki kosningaspá. Þær sýna stöðuna eins og hún er þegar þær eru gerðar. Það er því trú Maskínu að daginn fyrir kosningar hafi staða frambjóðenda verið eins og gögn frá 31. maí sýna.

Víða erlendis eru tvær umferðir í forsetakosningum, hér höfum við einungis eina umferð. Maskína spurði því einnig hvort fólk myndi kjósa taktíst ef tveir frambjóðendur væru efstir og jafnir, þ.e. velja annan hvorn þeirra. Í ljós kom að um 60% svarenda hefðu valið annað hvort Katrínu eða Höllu T. Þessi hópur var fjórum sinnum líklegri til að kjósa Höllu T. en Katrínu ef þeir myndu kjósa taktískt. Það er því líklegt að hluti kjósenda hafi kosið taktíst og það skýri meira fylgi Höllu og Katrínar í kosningunum sjálfum og minna fylgi Baldurs og Höllu Hrundar en kjósendur Jóns Gnarr virðast síður hafa kosið taktíst.

Finna má skýrslu með niðurstöðum Maskínukönnunar frá 31. maí hér.

Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 2.488, en þeir eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina með tilliti til kyns, aldurs, búsetu og menntunar. Könnunin fór fram 31. maí 2024.

Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.

Í könnunum Maskínu er þess gætt sérstaklega að úrtök endurspegli fjölbreytileika samfélagsins – svo sem hvað varðar aldursdreifingu, búsetu og menntunarstig. Upplýsingar um dreifingu svarenda eftir ólíkum hópum eru birtar með niðurstöðum hverju sinni svo fjölmiðlar og aðrir notendur geti lagt sjálfstætt mat á gæði mælinganna og hvaða viðhorf þær endurspegla.

Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.

Aðrar fréttir