Hver eru helstu kosningamálin?

Heim / Fréttir / Hver eru helstu kosningamálin?

Nú styttist í kosningar og kjósendur að gera upp hug sinn um hvernig best sé að ráðstafa atkvæði sínu. Í nýlegri Maskínukönnun voru svarendur spurðir hver væru þrjú helstu kosningamáln fyrir næstu kosningar. Tveir af hverjum þremur nefndu heilbrigðismál, rúmlega 41% nefndi umhverfis- og loftslagsmál og tæplega 34% nefndi efnahags- og skattamál. Svarendur höfðu tækifæri til að nefna allt að þremur atriðum og því eru svörin fleiri en svarendur könnunar og eru gögnin byggð á næstum 5.000 svörum frá um 2.100 svarendum.

Þegar svörin eru rýnd eftir bakgrunni kemur í ljós að talsverður munur er á milli svarenda til að mynda eftir kyni og stjórnmálaskoðun. Þannig sést að konur nefna frekar umhverfis- og loftslagsmál, velferðarmál og menntamál á meðan karlar nefna frekar efnahags- og skattamál, auðlindir og kvótakerfið og samgöngu- og byggðamál. Yngri svarendur nefndu frekar loftlags- og umhverfismál heldur en þeir sem eldri eru en elsti hópur svarenda nefndi oftast velferðamál.

Þegar svörin eru skoðuð eftir stjórnmálaskoðun kemur fram talsverður munur á áherslum. Heilbrigismál var sá málaflokkur sem kjósendur allra flokka nefndu oftast sem helsta kosningamálið í ár. En þegar aðiri málaflokkar eru skoðaðir kom í ljós að kjósendur Samfylkingar og Vinstri grænna nefndu oftar loftslags- og umhverfismál en kjósendur annarra flokkar, kjósendur Sjálfstæðisflokks nefndu oftar skatta- og efnahagsmál ásamt kjósendum Viðreisnar og Miðflokks. Kjósendur Framsóknarflokksis nefndu samgöngu- og byggðamál oftar en kjósendur annarra flokka. Kjósendur Píratar og Sósíalistaflokksins nefndu auðlindir og kvótakerfið oftar ásamt stjórnarskránni og kjósendur Flokks fólksins nefndu velferðamál oftast.

Ítarlegri niðurstöður ásamt bakgrunnsbreytum má finna í pdf skýrslu hér.

Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 2.078 talsins. Svarendur eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 31. ágúst til 6. september 2021.

Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.

Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.

Aðrar fréttir