Flokkar hægra megin við miðju bæta við sig fylgi

Heim / Fréttir / Flokkar hægra megin við miðju bæta við sig fylgi

Í mánaðarlegri  Maskínukönnun á fylgi flokkanna á landsvísu koma fram örlitlar breytingar frá fyrri mánuðum. Þar ber hæst að tveir flokkar, Sjálfstæðisflokkurinn og Viðreisn, sem skilgreina sig hægra megin við miðju bæta við sig fylgi en fylgi Samfylkingarinnar dregst saman á milli mánaða. Þá hefur Miðflokkurinn, sem sömuleiðis skilgreinir sig sem hægri flokk, bætt nokkru við sig í tveimur síðustu  Maskínukönnunum.

Viðreins og Sjálfstæðisflokkurinn spýta í
Fylgi Sjálfstæðisflokksins hefur að undanförnu mælst nokkru minna en alla jafna en nú bætir flokkurinn við sig 2 prósentustigum á milli mælinga og er það nú tæplega 20%. Það sama má segja um Viðreisn sem bætir einnig við sig 2 prósentustigum á milli mælinga með 11-12% fylgi nú.

Miðflokkurinn yfir kjörfylgi
Miðflokkurinn hefur rétt nokkuð úr kútnum samkvæmt tveimur síðustu Maskínukönnunum  stendur nú í 7% fylgi sem er um 2,5% prósentustigum meira en flokkurinn fékk þegar gengið var til kosninga.

Samfylkingin og Píratar gefa eftir
Samfylkingin hefur verið á miklu flugi samkvæmt mælingum undanfarið eða allt frá því að Kristrún Frostadóttir tók við sem formaður flokksins. Núna gefur Samfylkingin lítið eitt eftir og er nú með rúmlega 24% fylgi sem er um 1,5 prósentustigi minna en í síðasta mánuði. Píratar gefa sömuleiðis eftir á milli mánaða og mælast nú með tæplega 11%

Fylgi Framsóknar helst stöðugt
Framsóknarflokkurinn, sem að mati margra var sigurveigari síðustu kosninga, hefur týnt stórum hluta af sínu fylgi frá kosningum og mælist nú líkt og undanfarnamánuði í kringum 9%.

Flokkur fólksins jafn flokki forsætisráðherra
Fylgi VG, flokks forsætisráðherra, mælist nú með allra minnsta 6,5% sem er sama fylgi og Flokkur fólksins er með samkvæmt þessari Maskínukönnun. Aðeins einn flokkur er nú með minna fylgi en það Sósíalistaflokkurinn með rétt tæp 5%.

Samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokkanna er 20 prósentustigum minna en í kosningunum fyrir rúmum tveimur árum. Þá  voru þessir þrír flokkar með samtals 54,4% fylgi. Það hefur síðan þá dregist nokkuð hressilega saman og hefur  aðeins tvisvar sinnum verið yfir 50% samkvæmt Maskínu það sem af er kjörtímabilinu. Núna er staðan sú að flokkarnir mælast samanlagt með um 35%  fylgi.

Ítarlegri niðurstöður má finna í pdf-skýrslu hér.

Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 1.466 sem tóku afstöðu til flokks, en þeir eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 15. til 29. september 2023.

Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.

Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.

Aðrar fréttir
Meðmæling Maskínu 2023Mynd: Stjórnarráðið