Afsögn Bjarna Benediktssonar

Heim / Fréttir / Afsögn Bjarna Benediktssonar

Í kjölfar þess að Bjarni Benediktsson sagði af sér sem fjármála- og efnahagsráðherra spurði Maskína hversu sammála eða ósammála svarendur væru ákvörðun hans um að segja af sér. Stór hluti, eða rúm 80% reyndust sammála ákvörðun Bjarna, þar af um 63% mjög sammála, og einungis lítill hluti, eða rúmlega 6%, sögðust ósammála. Af kjósendum Sjálfstæðisflokksins voru rúmlega 51% sammála ákvörðuninni en 24% ósammála.

 

Hver eru næstu skref hjá Bjarna?
Maskína spurði í sömu könnun um hvað Bjarni ætti að gera í framhaldinu af afsögn sinni. Yfir 70% svarenda vildu að Bjarni myndi hætta sem ráðherra, 13% að hann héldi áfram sem ráðherra í öðru ráðuneyti og tæp 3% að hann drægi afsögn sína til baka og héldi áfram sem fjármála- og efnahagsráðherra. Þá höfðu 13-14% ekki skoðun á málinu.
Þegar litið er til svara eftir aldri sést að eftir því sem aldur fór lækkandi var fólk líklegra til að vilja að Bjarni hætti sem ráðherra. Rúm 79% svarenda í yngsta aldursflokknum 18-29 ára, vildu sjá Bjarna hætta sem ráðherra, samanborið við næstum 60% þeirra 60 ára og eldri.
Af kjósendum Sjálfstæðisflokksins vildi fjórðungur sjá Bjarna hætta sem ráðherra, 42- 43% að hann taki við sem ráðherra í öðru ráðuneyti og tæplega 13% að hann dragi afsögn sína til baka. Þá vildu rúm 39% stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar sjá Bjarna hætta sem ráðherra og tæplega 37% að hann tæki annan ráðherrastól.

Ítarlegri niðurstöður má finna í pdf-skýrslu hér.

 

Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 916, en þeir eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 12. til 13. október 2023.
Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.
Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.

Aðrar fréttir