Borgarviti Maskínu nemur nokkrar breytingar á fylgi flokkanna í borgarstjórn frá kosningum

Heim / Fréttir / Borgarviti Maskínu nemur nokkrar breytingar á fylgi flokkanna í borgarstjórn frá kosningum

Við birtum nú í þriðja sinn niðurstöður úr Borgarvita Maskínu en hann samanstendur af spurningum sem snúa að borgarstjórn Reykjavíkur, sem lagðar eru fyrir íbúa þessa lang stærsta og umsvifamesta sveitafélags landsins.

Samfylking og Sjálfstæðisflokkurinn skipta helming fylgisins bróðurlega á milli sín
Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn eru lang stærstu flokkarnir samkvæmt Borgarvita Maskínu, Sjálfstæðisflokkurinn með 25% fylgi og Samfylkingin með rétt tæplega 26% fylgi. Þetta er nokkru yfir kjörfylgi Samfylkingarinnar sem var um 20% þegar gengið var til kosninga vorið 2022 en fylgi Sjálfstæðisflokks er nánast það sama og flokkurinn uppskar í síðustu kosningum.

Fylgið hrynur af Framsókn
Framsóknarflokkurinn áttigóðu gengi að fagna í síðustu borgarstjórnarkosningum þar sem Einar Þorsteinsson, nýr oddviti flokksins, leiddi lista flokksins. Það skilaði flokknum tæplega 19% atkvæða og Einari borgarstjórnarstólnum á miðju kjörtímabili. Nú þegar rúmt ár er liðið af kjörtímabilinu hefur fylgi Framsóknar hrunið og er nú rétt um 6%.

Vinsæl Sanna
Fylgi Sósíalista hefur mælst nokkru yfir kjörgengi þeirra í þremur síðustu Borgarvitum Maskínu og er fylgið nú um 10%

Viðreisn og Píratar mælast stærri en í kosningum
Viðreisn mælist með um 8% fylgi sem er 3 prósentustigum meira en í kosningum. Það sama má segja um Pírata sem mælast nú með tæplega 14% fylgi sem er 2 prósentustigum meira heldur en í kosninugm.

Flokkur fólksins bætir í
Flokkur fólksins nýtur nú stuðning um 6% kjósenda en það er um helmingi meiri stuðningur en í síðasta Borgarvita, í nóvember, þegar um 3% sögðust kjósa flokkinn ef gengið yrði til sveitarstjórnarkosninga þá.

VG að þurrkast út?
VG mælist nú undir 3% og er flokkurinn við það að þurrkast út. Þó er einn flokkur sem mælist minni í borgastjórn en Miðflokkurinn er með rúmlega 2% fylgi.

Samanlagt fylgi borgarstjórnarflokkanna dregst lítillega saman frá kosningum þegar þeir höfðu samtals rúmlega 56% fylgi en það er nú  tæplega 54%.

Ítarlegri niðurstöður úr Borgarvita Maskínu má finna í pfd-skýrslu hér.

Við munum halda áfram að fjalla um niðurstöður Borgarvita Maskínu á næstu dögum.

Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 979, en þeir eru á aldrinum 18 ára og eldri og búsettir í Reykjavík. Könnunin fór fram 17. – 29. ágúst 2023.

Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar til helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.

Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er

 

Aðrar fréttir
Mynd: Stjórnarráðið