Áfram dregur úr ánægju með störf borgarstjóra

Heim / Fréttir / Áfram dregur úr ánægju með störf borgarstjóra

Nú sígur á seinni hluta veru Dags B. Eggertssonar í stóli borgarstjóra Reykjavíkur, en eins og lagt var upp með í upphafi kjörtímabilsins mun Einar Þorsteinsson taka við af honum í byrjun næsta árs. Einar verður þá fyrstur framsóknarmanna til að gegna embætti borgarstjóra.

Minni ánægja með borgarstjóra en áður
Á yfirstandandi kjörtímabili hefur Maskína lagt Borgarvitann þrisvar sinnum fyrir íbúa Reykjavíkurborgar og sýna niðurstöðurnar að ánægja með störf Dags sem borgarstjóra hafa dregist saman með hverri mælingu. Núna segjast innan við 24% ánægð með störf hans en rúmlega 55% óánægð. Ánægjan er meiri meðal kvenna en karla og meiri meðal yngsta hópsins en þeirra sem eldri eru.

Borgarstjóri óvinsælastur austan Elliðaáa
Talsverðan mun má sjá á að viðhorfi borgarbúa til starfa Dags eftir búsetu þeirra. Óánægjan er lang mest austan Elliðaáa þar sem 66% segjast óánægð og aðeins 15% ánægð. Aftur á móti er mun meiri ánægja með störf Dags meðal þeirra sem búa í Miðborginni eða Vesturbæ þar sem um 35% eru ánægð með störf hans á móti 37% óánægð.

Ítarlegri niðurstöður um Borgarvita Maskínu er að finna í pdf-skýrslu hér.

Við munum halda áfram að fjalla um niðurstöður Borgarvita Maskínu á næstu dögum.

Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 979, en þeir eru á aldrinum 18 ára og eldri og búsettir í Reykjavík. Könnunin fór fram 17. – 29. ágúst 2023.

Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar til helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.

Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er

 

Aðrar fréttir