Tæpur helmingur þjóðarinnar vill hefta aðgengi að vinsælum ferðamannastöðum vegna slysahættu

Heim / Fréttir / Tæpur helmingur þjóðarinnar vill hefta aðgengi að vinsælum ferðamannastöðum vegna slysahættu

Í gegnum tíðina hafa Íslendingar og aðrir sem hafa ferðast um landið kynnst því hversu óútreiknanleg náttúruöflin geta verið. Af þeim geta oft og tíðum skapast hættulegar aðstæður og því miður komið til þess að slys hafa orðið á fólki. Umræða hefur skapast um aðgengi að vinsælum ferðamannastöðum þar sem hætta er fyrir hendi og hvort eðlilegt sé að hefta aðgengi að slíkum stöðum með einum eða öðrum hætti eða jafnvel loka þeim tímabundið. Í kjölfar þessarar umræðu spurði Maskína almenning um viðhorf hans til þessa og greinilegt er að skoðanir landans eru misjafnar.

Fleiri hlynntir en andvígir heftu aðgengi að ferðamannastöðum
Á bilinu 46-47% aðspurðra segjast hlynnt því að hefta aðgengi að vinsælum ferðamannastöðum vegna hættu á slysum. Rétt rúmlega 26% segjast andvíg heftu aðgengi. Talsverður munur er á afstöðu kynjanna en konur eru mun hlynntari því að hefta aðgengi en karlar. Rúmlega 55% kvenna segjast hlynnt því en tæplega 38% karla eru sama sinnis.

Skiptar skoðanir eftir stjórnmálaskoðun
Mest er andstaðan við heft aðgengi að ferðamannastöðum meðal kjósenda Miðflokks þar sem 41% segjast andvíg, Vinstri grænna þar sem rúmlega 40% sögðust andvíg og Sósílistaflokksins þar sem ríflega 44% sögðust andvíg. Aðra sögu er að segja af kjósendum Framsóknar en í þeirra röðum voru flestir hlynntir heftu aðgengi eða 54%.

Fleiri andvígir en hlynntir því að loka fyrir aðgengi í Reynisfjöru
Maskína spurði einnig um hvort loka ætti aðgengi að Reynisfjöru en þar hafa orðið mannskæð slys á undanförnum árum, núna síðast fyrir örfáum vikum. Rétt um 34% aðspurðra sögðust hlynnt því að loka fyrir aðgengi í Reynisfjöru en rúmlega 42% voru því andvíg. Mun meiri stuðningur var við að loka meðal kvenna en karla en tæplega 43% kvenna sögðust hlynntar lokuninni en aðeins 25–26% karla. Þá var um helmingur karla andvígur því að Reynisfjöru væri lokað.

Ítarlegri niðurstöður má finna í pdf-skýrslu hér.

Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 945, en þeir eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 16. til 23. júní 2022.

Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.

Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.

Aðrar fréttir