Hátt í helmingur landsmanna hlynntur afglæpavæðingu neysluskammta fíkniefna

Heim / Fréttir / Hátt í helmingur landsmanna hlynntur afglæpavæðingu neysluskammta fíkniefna

Talsverð umræða hefur skapast í samfélaginu um hvort rétt sé að neysluskammtar fíkniefna verði ekki skilgreindir sem lögbrot hér á landi. Af umræðunni að dæma eru skoðanir á málinu býsna skiptar og því lagði Maskína spurninguna fyrir almenning til að fá fram hver skoðun landsmanna er á þessu umdeilda viðfangsefni.

Tæpur helmingur landsmanna fylgjandi
Niðurstöður könnunarinnar sýna að rétt tæpur helmingur landsmanna er fylgjandi því að varsla neysluskammta fíkniefna verði ekki skilgreind sem lögbrot hérlendis en tæplega þriðjungur er því andvígur. Karlar eru frekar fylgjandi en konur og yngra fólk, 39 ára og yngra, sömuleiðis fremur en eldra. Fleiri Reykvíkingar annars vegar og Vestlendingar og Vestfirðingar hins vegar eru fylgjandi afglæpavæðingu neysluskammta en aðrir landsmenn.

Mesta andstaðan meðal kjósenda Miðflokks
Stjórnmálaskoðun fólks hefur talsvert að segja um viðhorf til afglæpavæðingar á neysluskömmtum fíkniefna. Þar sést að andstaðan er lang mest meðal kjósenda Miðflokksins en þeirra á meðal eru rétt um 70% andvíg.  Allt aðra sögu er að segja af kjósendum bæði Pírata og Sósíalistaflokksins, en meðal kjósenda Pírata eru rúmlega tveir af hverjum þremur fylgjandi og meðal kjósenda Sósíalistaflokksins eru um 85% fylgjandi.

Kjósendur Framsóknar og Sjálfstæðissflokksins nokkuð sammála
Þegar viðhorf kjsóenda ríkisstjórnarflokkanna þriggja er skoðað kemur í ljós að kjósendur Vinstri grænna skera sig nokkuð frá kjósendum Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar því meðal þeirra eru um 44% fylgjandi afglæpavæðingu neysluskammta. Stuðningurinn er nokkru minni meðal kjósenda Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins en tæplega 32% Framsóknarmanna og rúmlega 37% Sjálfstæðismanna eru fylgjandi afglæpavæðingu neysluskammta.

Ítarlegri niðurstöður má finna í pdf-skýrslu hér.

Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 1. 109, en þeir eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 17. til 29. mars 2022.

Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.

Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.

 

Aðrar fréttir