Sjálfstæðisflokkurinn bætir talsvert við sig

Heim / Fréttir / Sjálfstæðisflokkurinn bætir talsvert við sig

Maskína mældi fylgi stjórnmálaflokka í júlímánuði. Töluverðar breytingar hafa orðið á því frá síðustu mælingu, mismiklar þó, en flestar innan skekkjumarka.

Sjálfstæðisflokkurinn bætir við sig fylgi
Sjálfstæðisflokkurinn bætir við sig rúmum 5 prósentustigum í fylgi frá síðustu mælingu Maskínu í júní og mælist nú með á milli 24% og 25%. Flokkurinn hefur ekki mælst stærri síðan í mars á þessu ári og er þetta sama fylgi og í kosningunum síðasta haust. Vinstri græn missa örlítið fylgi frá síðustu mælingu og er nú með tæplega 8%. Framsóknarflokkurinn heldur í sitt fylgi og mælist líkt og í júnímánuði eða með 18%.

Fylgi Viðreisnar stöðugt en fylgi Pírata og Samfylkingar lækkar áfram
Fylgi Viðreisnar helst jafnframt tiltölulega stöðugt milli mælinga, eða rúm 8%. Píratar mælast með næstum 13% fylgi og minnkar um tvö prósentustig frá því í júní. Þrátt fyrir það mælast Pírtar enn þriðji stærsti flokkurinn á landsvísu Þá minnkar fylgi Samfylkingar aðeins eða um rúm tvö prósentustig og er nú um 11% en Samfylkingin hefur lækkað um fjögur prósentustig frá því í maí.

Miðflokkurinn og Flokkur fólksins og bæta við sig fylgi á meðan Sósíalistaflokkurinn lækkar
Flokkur fólksins mælist með um 7% fylgi sem er svipað og í júní. Sósíalistaflokkurinn mælist nú minnstur flokkanna með rúm 5% fylgi og lækkar fylgið um prósentustig milli mælinga. Miðflokkurinn mælist með 6% fylgi og bætir við sig yfir heilu prósentustigi frá því í júní.

Ítarlegri niðurstöður má finna í pdf-skýrslu hér.

Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 895, en þeir eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 20. til 25. júlí 2022.

Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.

Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.

 

Aðrar fréttir