Talsverð andstaða við gjaldtöku í jarðgöngum meðal almennings

Heim / Fréttir / Talsverð andstaða við gjaldtöku í jarðgöngum meðal almennings

Nú í sumar setti innviðaráðherra fram hugmyndir um gjaldtöku í öllum jarðgöngum á Íslandi. Í framhaldinu skapaðist lífleg umræða í samfélaginu þar sem mismunandi sjónarmið voru viðruð. Maskína spurði almenning um viðhorf til þess að hefja slíka gjaldtöku.

Meira en helmingur þjóðarinnar andvígur
Um 55% þeirra sem tóku þátt í könnuninni sögðust andvíg gjaldtöku í öllum jarðgöngum á Íslandi. Mest er andstaðan meðal íbúa á Vesturlandi og Vestfjörðum en þar eru 75% andvíg. Talsverðan breytileika er að sjá á viðhorfi fólks eftir stjórnmálaskoðun þess. Kjósendur Sósíalistaflokksins og Flokks fólksins eru andvígari gjaldtökunni en kjósendur annarra flokka. Best mælist gjaldtakan fyrir meðal kjósenda Viðreisnar þar sem hátt í 40% segjast hlynnt, auk kjósenda Vinstri grænna og Samfylkingarinnar en meðal þeirra eru 32% hlynnt.

Ítarlegri niðurstöður má finna í pdf-skýrslu hér.

Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 1.069, en þeir eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 20. til 25. júlí 2022.

Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.

Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.

Aðrar fréttir