Fjórðungur hefur mjög miklar áhyggjur af samþjöppun í sjávarútvegi

Heim / Fréttir / Fjórðungur hefur mjög miklar áhyggjur af samþjöppun í sjávarútvegi

Mikil umræða skapaðist í þjóðfélaginu um samþjöppun í sjávarútvegi í kjölfar kaupa Síldarvinnslunnar á Vísi í Grindavík fyrr í sumar. Maskína spurði því almenning um viðhorf hans til téðar samþjöppunar.

Tæplega helmingur hefur miklar áhyggjur
Tæplega helmingur (46,2%) þeirra sem tóku þátt í könnuninni segist hafa miklar áhyggjur af samþjöppun í sjávútvegi og fjóðungur allra hefur mjög miklar áhyggjur. Innan við 30% (27,9%) segjast hafa litlar áhyggjur. Karlar hafa frekar áhyggjur af samþjöppun í sjávarútvegi en konur og segist rúmur helmingur þeirra hafa miklar áhyggjur en um 40% kvenna eru sama sinnis.

Áhyggjurnar aukast með hækkandi aldri
Talsverður breytileiki er á viðhorfi fólks eftir aldri og þar sést greinilega að áhyggjurnar aukast með hækkandi aldri þess. Innan við 30% svarenda undir þrítugu hefur miklar áhyggjur af samþjöppun í íslenskum sjávarútvegi en rúmlega 60% þeirra sem eru 60 ára og eldri.

Kjósendur Framsóknar og Sjáflstæðisflokksins hafa minnstar áhyggjur
Það kemur vart á óvart að þegar niðurstöðurnar eru greindar eftir stjórnmálaskoðun fólks koma fram býsna ólík viðhorf. Þannig má sjá að kjósendur Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins hafa lang minnstu áhyggjurnar af samþjöppun í íslenskum sjávarútvegi. En 43% kjósenda Sjálfstæðisflokksins hafa litlar áhyggjur og um 36% kjósenda Framsóknar sömuleiðis. Mestar eru áhyggjurnar meðal kjósenda Sósíalistaflokksins og Samfylkingar en um 75% Sósíalista hafa miklar áhyggjur og 78% kjósenda Samfylkingarinnar.

Ítarlegri niðurstöður má finna í pdf-skýrslu hér.

Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 1.069, en þeir eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 20. til 25. júlí 2022.

Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.

Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.

 

 

 

Aðrar fréttir