Tæplega helmingu Reykvíkinga vill hafa Reykjavíkurflugvöll í Vatnsmýrinni

Heim / Fréttir / Tæplega helmingu Reykvíkinga vill hafa Reykjavíkurflugvöll í Vatnsmýrinni

Rúmlega 53% Íslendinga eru hlynnt því að framtíðarstaðsetning Reykjavíkurflugvallar verði í Vatnsmýrinni samkvæmt könnun Maskínu. Um 26% segjast andvíg því að flugvöllurinn verði í Vatnsmýrinni en á bilinu 20-21% eru í meðallagi hlynnt/andvíg. Stuðningur við núverandi staðsetningu vallarins hefur þó minnkað á sl. árum. Eldri svarendur, þeir sem eru 50 ára eða eldri, eru hlynntari núverandi staðsetningu vallarins en yngri. Reykvíkingar eru síður hlynntir núverandi staðsetningu flugvallarins (44,4% hlynnt en 36,1% andvíg) en aðrir, en Norðlendingar og Austfirðingar eru hlynntastir núverandi staðsetningu. Kjósendur Framsóknarflokksins og Miðflokksins eru hlynntastir því að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni, en kjósendur Pírata, Samfylkingar eða Viðreisnar eru andvígastir. Þá eru þeir sem hafa háskólamenntun andvígari núverandi staðsetningu vallarins en þeir sem hafa grunnskóla-, framhaldsskóla- eða iðnmenntun. Jafnframt eru einhleypir andvígari Reykjavíkurflugvelli í Vatnsmýri en aðrir.

Spurt var „Ert þú hlynnt(ur) eða andvíg(ur) því að framtíðarstaðsetning Reykjavíkurflugvallar verði í Vatnsmýrinni?“ Svarendur voru 786 talsins og 97,1% þeirra tóku afstöðu til spurningarinnar. Svarendur koma úr Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Svarendur eru af báðum kynjum, alls staðar að af landinu og á aldrinum 18-75 ára. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 22. mars – 4. apríl 2018.

Skýrsluna í heild sinni má nálgast hér.

Aðrar fréttir