Tæplega 3% íslendinga ætla líklega á HM í Rússlandi

Heim / Fréttir / Tæplega 3% íslendinga ætla líklega á HM í Rússlandi

Á milli 76% og 77% Íslendinga á aldrinum 18 og eldri segja það öruggt að þeir fari ekki á leik hjá íslenska landsliðinu á heimsmeistaramóti karla í knattspyrnu (HM) í Rússlandi í sumar. Þá segja tæplega 21% það ólíklegt að þau fari. Tæplega 1% Íslendinga segja öruggt að þeir fari á HM, tæplega 1% telja mjög líklegt að þeir fari og milli 0% og 1% nokkuð líklegt.

 

Í kjölfar þess að Ísland tryggði sér þátttökurétt á HM í október 2017 voru sambærilegar spurningar lagðar fyrir almenning 13.-23. október. Þá voru færri en 1% Íslendinga sem sögðu öruggt að þeir færu á HM 2018 líkt og nú, en milli 3% og 4% töldu það mjög líklegt og um 6% nokkuð líklegt. Því eru mun færri sem telja það líklegt að þeir fari á HM í sumar nú heldur en þegar spurt var í október. Mun færri sögðu öruggt að þeir færu ekki í október, eða 43%-44% Íslendinga.

Karlar og konur eru tiltölulega jafn líkleg til að fara á HM í sumar. Eftir því sem fólk er yngra er það líklegra til að fara fyrir utan 50-59 ára, sem er líklegasti hópurinn til þess að fara á HM. Íslendingar sem eru með framhaldsskólapróf/iðnmenntun eða háskólapróf eru líklegri til þess að fara á HM heldur en þeir sem eru með grunnskólapróf. Einhleypir eru líklegri til þess að fara á HM en aðrir og þeir sem búa einir á heimili og þeir sem búa á barnlausum heimilum eru líklegri til þess að fara en þeir sem búa með einu eða fleiri börnum.

Þeir sem sögðu að það væri líklegt eða öruggt að þeir færu ekki á HM voru spurðir hvers vegna það væri. Algengasta ástæðan var áhugaleysi, sem um 30% nefndu, og þar á eftir kostnaður en 25%-26% nefndu það. Meðal þeirra sem sögðu það öruggt að þeir færu ekki á HM 2018 er áhugaleysi algengasta ástæðan en meðal þeirra sem sögðu það ólíklegt að þeir færu er kostnaður algengasta ástæðan.

Svarendur voru 782 talsins, koma úr Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem er dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Spurt var „Hversu líklegt eða ólíklegt er að þú farir á leik íslenska landsliðsins á heimsmeistaramóti karla í knattspyrnu (HM) í Rússlandi 2018?“ og 99,4% svarenda tóku afstöðu til spurningarinnar. Svarendur eru af báðum kynjum, alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 22. mars til 4. apríl 2018.

Skýrsluna í heild sinni má nálgast hér.

Aðrar fréttir