Skiptar skoðanir Reykvíkinga á hver eigi að verða næsti borgarstjóri

Heim / Fréttir / Skiptar skoðanir Reykvíkinga á hver eigi að verða næsti borgarstjóri

Margir hafa fylgst af eftirvæntingu með myndun nýs meirihluta í Reykjavíkurborg. Fljótlega eftir að niðurstöður kosninga lágu fyrir kom í ljós eða ekki voru allir tilbúnir að vinna með öllum og því ljóst að ekki voru mörg samstarfsmynstur sem gætu gengið upp. Maskína lagði nokkrar spurningar fyrir Reykvíkinga sem sneru að því meirihlutasamstarfi sem þá var í farvatninu, og er rétt að taka fram að könnun þessi fór fram áður en að flokkarnir greindu frá málefnasamningi sínum og hvernig embættum yrði skipt.

Íbúar í Miðborg og Vesturbænum líst best á meirahlutasamstarfið
Sitt sýnist hverjum þegar Reykvíkingar voru spurðir að hversu vel þeim litist á fyrirhugað borgarstjórnarsamstarf Framsóknar, Pírata, Samfylkingarinnar og Viðreisnar. Um 36% aðspurðra sögðust lítast vel á en 38-39% sögðust lítast illa á fyrirhugaðan meirihluta. Mestur stuðningur við þetta meirihlutasamstarf er meðal þeirra sem búa í Miðborginni og Vesturbæ en þeirra á meðal segjast næstum 47% lítast vel á. Stuðningurinn er sýnu minni meðal íbúa í Hlíðum, Laugardal, Háaleiti og Bústaðahverfi þar sem ríflega 41% segist lítast vel á. Minnst er ánægjan meðal íbúa ausan Elliðaáa en þar segjast 28% lítast vel á borgarstjórnarsamtarf þessa fjögurra flokka.

Kjósendur flokka í minnihluta hóflega bjartsýnir
Þegar niðurstöðurnar eru greindar eftir því hvaða flokk svarendur kusu í nýafstöðnum kosningum kemur í ljós að kjósendur þeirra flokka sem nú eru í minnihluta eru hóflega bjartsýnir á framhaldið. Tæplega 12% þeirra segjast lítast vel á samstarf þessara fjögurra flokka. Athygli vekur einnig að af kjósendum flokkanna sem nú mynda meirihluta eru rétt um 57% sem líst vel á samstarfið og því ljóst að einhverjir kjósendur þeirra flokka hefðu viljað sjá aðra samsetningu í meirihlutanum.

Borgarstjórastóllinn
Niðurstöður Maskínu sýna greinilega að skiptar skoðanir eru á því hver sé best til þess fallinn að gegna embætti borgarstjóra á næsta kjörtímabili. Núna vitum við að þeir Einar og Dagur ætla að skipta embættinu með sér, en þær upplýsingar lágu ekki fyrir þegar þessi spurning var borin upp við kjósendur í Reykjavík. Það er áhugavert að sjá hversu mikill munur er á skoðunum kjósenda minnihlutans annars vegar og kjósendum meirihlutans hins vegar. Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknar, er sá sem flestir vilja sjá sem næsta borgarstjóra eða rúmlega  50% aðspurðra. Þá er stuðningur við Einar í stól borgarstjóra mun meiri meðal kjósenda minnihlutans en rúmlega 68% vilja hann sem næsta borgarstjóra en 37-38% kjósenda minnihlutans. Þessu er alveg öfugt farið þegar niðurstöður Dags B. Eggertsonar, núverandi borgarstjóra, eru skoðaðar. Þar nýtur hann mun meiri stuðnings meðal kjósenda meirihlutans eða tæplega 37% en aðeins innan við 7% kjósenda minnihlutans segjast vilja hann sem næsta borgarstjóra. Stuðningur við Einar í stól borgarstjóra eykst með hækkandi aldri og vilja um 63-64% þeirra sem eru 60 ára og eldri hann sem næsta borgarstjóra. En stuðningur við Dag er mestur meðal yngsta hóps kjósenda, en 26-27% þeirra myndu helst vilja sjá Dag sem næsta borgarstjóra Reykjavíkur.

Ítarlegri niðurstöður er að finna í pdf-skýrslu hér.

Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 615, búsettir í Reykjavík og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því Reykvíkinga prýðilega. Könnunin fór fram dagana 1. til 7. júní 2022.

Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.

Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.

Aðrar fréttir