Misjafnar væntingar Íslendinga til veðursins í sumar

Heim / Fréttir / Misjafnar væntingar Íslendinga til veðursins í sumar

Íslendingar hafa löngum verið uppteknir af veðrinu sem skýrist sennilega af því að hér er allra veðra von, allan ársins hring. Síðastliðið sumar var gæðum býsna misskipt milli landshluta og íbúar Suðvesturhornsins nutu talsvert minni veðurblíðu en íbúar á Norður- og Austurlandi. Maskína spurði um væntingar fólks til veðursins í sínum landshluta og augljóst af niðurstöðunum að dæma að Íslendingar eru misbjartsýnir á gott veður í sumar.

Minnsta væntingar til veðursins meðal Reykvíkinga
Heilt yfir landið búast næstum 60% aðspurðra við góðu veðri í sínum landshluta í sumar. Þegar niðurstöðurnar eru hins vegar skoðaðar eftir landshlutum er mjög mikill munur á væntingum Norðlendinga og Austfirðinga annars vegar og öðrum íbúum landsins hins vegar. Minnstar væntingar til góðs veður er meðal Reykjavíkinga, en  rétt um helmingur þeirra býst við góðu veðri en tæp 10% sem búast við slæmu veðri. Íbúar í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu eru örlítið bjartsýnni en nágrannar sínir í Reykjavík. Íbúar á Suðurlandi, Reykjanesi, Vesturlandi og Vestfjörðum búast við nokkru betra veðri en höfuðborgarbúar og eru á bilinu 57-58% þeirra sem telja að veðrið í sumar verði gott.

Íbúar á Austur- og Norðurlandi með sólina í augunum
Langmestrar bjartsýni gæti meðal íbúa Austurlands en yfir 90% þeirra búast við góðu veðri í sumar. Sömu sögu er að segja af íbúum Norðurlands en 85% þeirra búast við góðu veðri í sumar. Athygli vekur að enginn aðspurðra á Norður- og Austurlandi býst við slæmu veðri í sínum landshluta í sumar.

Nálagst má ítarlegri niðurstöður í pdf-skýrslu hér.

Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 889, en þeir eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 20. til 24. apríl 2022.

Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.

Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.

Aðrar fréttir