Ferðahugur í landsmönnum

Heim / Fréttir / Ferðahugur í landsmönnum

Sumarið er tími ferðalaga og undanfarin tvö ár hafa Íslendingar verið duglegir að ferðast innanlands. Núna þegar ferðatakmörkunum hefur verið aflétt og auðveldara að ferðast á milli landa er forvitnilegt að sjá hvort að dregið hefur úr ferðavilja Íslendinga innan landsteinanna.

Suðurland vinsælasti viðkomustaðurinn innanlands
Ríflega 83% segja líklegt að þeir komi til með að ferðast innanlands í sumar, en það er örlítið færri en stefndu að ferðalögum innanlands árið 2020 þegar Maskína spurði að þessu síðast, en þá voru það 82% Þegar spurt er um hvaða landshluta sé líklegast að fólk ferðist til er það Suðurland sem trónir á toppnum, en um 48% aðspurðra segja það líklegast að þeir muni ferðast þangað í sumar. Þar á eftir eru Norðurland eystra (38,0%) og Austurland (34,4%) sem aðspurðir nefna. Fæstir vilja ferðast til Suðurnesja eða innan við 9%.

Evrópa heillar mest
Maskína spurði sömuleiðis um hversu líklegt það væri að fólk myndi ferðast til útlanda í sumar og þar kemur fram að ríflega helmingur telur líklegt að hann hyggi á ferðalög utan landsteinanna. Þar er Evrópa lang algengasti viðkomustaðurinn en yfir 90% þeirra sem hyggja á ferðalög erlendis ætla sér til Evrópu. Rétt um 10% ætla í ferðalag vestur um haf til Norður Ameríku.

Ítarlegri niðurstöður má finna í pdf-skýrslu hér.

Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 1.736, en þeir eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 29. apríl til 4. maí 2022.

Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.

Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.

Aðrar fréttir