Naumur meirihluti vill ekki að sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu sameinist

Heim / Fréttir / Naumur meirihluti vill ekki að sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu sameinist

Rétt ríflega helmingur íbúa á höfuðborgarsvæðinu (51,1%), sem eru 18 ára eða eldri, vill ekki að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu sameinist í eitt sveitarfélag. Fyrir tveimur árum var hlutfallið rétt undir helmingi (48,4%) og telst aukningin ekki marktæk. Á bilinu 55-56% Reykvíkinga vilja sameiningu, þótt sú skoðun sé missterk eftir hverfum, en aðeins 40% íbúa annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu að meðaltali. Meirihluti íbúa í hverju sveitarfélagi að Reykjavík undanskildu er á móti þessari sameiningu.

Það er athyglisvert að um 60% karla vilja sameiningu sveitarfélaganna og aðeins 37% kvenna, en þetta er óvenju mikill skoðanamunur á kynjum. Þá eykst vilji til sameiningar sveitarfélaga mikið með aldri, þannig að til dæmis vilja færri en 30% íbúa sem eru 18-29 ára sameiningu, en yfir 60% íbúa sem eru 50 ára eða eldri.

Kjósendur Viðreisnar (73,8%) og Framsóknarflokksins (69,4%) vilja fremur en aðrir að sveitarfélögin sameinist, en kjósendur Sjálfstæðisflokksins síst (37,1%) og kjósendur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs næst síst (44,5%). Meirihluti kjósenda annarra flokka vill umrædda sameiningu.

Þá spurði Maskína íbúa höfuðborgarsvæðisins hvaða sveitarfélög ættu helst að sameinast, ef einhver. Hér var sem sé einnig gefinn kostur á annarri sameiningu en allra sveitarfélaganna í eina sæng. Stærsti hópurinn (30,5%) vill enga sameiningu og stærsti hópur (26,8%) þeirra sem vilja einhverja sameiningu vilja eitt sveitarfélag, en næst stærsti hópurinn (10,7%) vill að Reykjavík og Seltjarnarnes sameinist.

Svarendur voru 970 talsins, koma úr Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem er dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Svarendur eru 18 ára og eldri af höfuðborgarsvæðinu. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því íbúa höfuðborgarsvæðisins á umræddum aldri prýðilega. Könnunin fór fram dagana 3. til 12. mars 2020.

Nánari upplýsingar má finna hjá Þóru Ásgeirsdóttur í síma 896-4427 eða hjá thora@maskina.is.

Aðrar fréttir