Meirihluti Íslendinga hlynntir Borgarlínunni

Heim / Fréttir / Meirihluti Íslendinga hlynntir Borgarlínunni

Fleiri Íslendingar á aldrinum 18 til 75 ára eru hlynntir en andvígir Borgarlínunni samkvæmt könnun Maskínu. Á bilinu 52-53% eru hlynnt Borgarlínunni en tæplega 25% eru andvíg. Þá eru tæplega 23% í meðallagi hlynnt eða andvíg Borgarlínunni.

Karlar eru andvígari Borgarlínunni en konur, en tæplega 34% karla eru andvíg en aðeins rúmlega 15% kvenna – bæði kynin eru þó hlynntari en andvíg. Þá er afstaða til Borgarlínunnar einnig breytileg eftir aldri en yngra fólk er hlynntara Borgarlínunni en eldra. Höfuðborgarbúar eru almennt hlynntari Borgarlínunni en aðrir Íslendingar þegar þjóðinni er skipt í tvo hópa. Sjá má að um 60% Reykvíkinga eru hlynnt Borgarlínunni en hartnær fjórðungur andvígur. Þá eru þeir sem eru með háskólapróf hlynntari Borgarlínunni en þeir sem hafa hafa sótt skóla skemur.

Að lokum er afstaða til Borgarlínunnar mjög breytileg eftir stjórnmálaskoðun en aðeins um 25-39% kjósenda Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins eru hlynnt henni á meðan um 67-85% kjósenda Vinstri grænna, Samfylkingarinnar, Pírata og Viðreisnar eru hlynnt henni.

Svarendur voru 1974 talsins og koma úr Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem er dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Svarendur eru af báðum kynjum, alls staðar að af landinu og á aldrinum 18-75 ára. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 18.- 25. janúar 2018.

Skýrsluna í heild sinni má nálgast hér.

Aðrar fréttir