Fleiri andvígir en hlynntir gæludýrum á veitingastöðum

Heim / Fréttir / Fleiri andvígir en hlynntir gæludýrum á veitingastöðum

Fleiri Íslendingar á aldrinum 18 til 75 ára eru andvígir en hlynntir því að leyfa gæludýr á veitingastöðum en á bilinu 47-48% eru andvíg því (95% öryggisbil: 44,5-50,3%) og aðeins tæplega 33% eru hlynnt því (95% öryggisbil: 30,0-35,4%). Þá eru um 20% Íslendinga í meðallagi hlynnt því að leyfa gæludýr á veitingastöðum.

Hærra hlutfall kvenna en karla er hlynnt því að leyfa gæludýr á veitingastöðum eða milli 36% og 37% á móti sléttum 29% hjá körlum. Miklu munar á afstöðunni eftir aldri, en því yngra sem fólk er þeim mun hlynntara er það að leyfa gæludýr á veitingastöðum. Þannig er til að mynda rösklega helmingur Íslendinga á aldrinum 18-29 ára hlynntur en aðeins rúmlega 18% þeirra sem eru 60 ára og eldri. Einnig skiptir búseta miklu máli, þannig að til dæmis er hærra hlutfall Reykvíkinga en á íbúa Vesturlands og Vestfjarða hlynnt því leyfa gæludýr á veitingastöðum.

Munur er á afstöðu Íslendinga eftir menntun þannig að með lengri skólagöngu eykst stuðningur við að leyfa gæludýr á veitingastöðum. Einnig er munur á afstöðu eftir hjúskaparstöðu en hærra hlutfall einhleypra er hlynnt því að leyfa gæludýr á veitingastöðum en þeirra sem eru giftir/kvæntir eða í sambúð. Þá er einnig munur á afstöðu eftir stjórnmálaskoðun en hærra hlutfall kjósenda Pírata er hlynnt því að leyfa gæludýr á veitingastöðum heldur en kjósenda Flokks fólksins, Framsóknarflokksins, Miðflokksins, Sjálfstæðisflokksins og Viðreisnar.

Svarendur voru 827 talsins, koma úr Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem er dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Spurt var „Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) því að gestir geti tekið hunda eða ketti með sér á veitingastað?“ og 99,7% svarenda tóku afstöðu til spurningarinnar. Svarendur voru af báðum kynjum, alls staðar að af landinu og á aldrinum 18-75 ára. Gögnin voru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 10. til 21. nóvember 2017.

Skýrsluna í heild sinni má nálgast hér.

Aðrar fréttir