Ganga lang algengasta útivistin

Heim / Fréttir / Ganga lang algengasta útivistin

Sumarið er sú árstíð sem helst býður upp á útivist í íslensku veðurfari, þó að veðrið hafi ekki verið upp á marga fiska í sumar. Útivist getur verið margskonar, ýmis íþróttaiðkun, veiði eða gönguferðir svo fátt eitt sé nefnt. Maskína spurði almenning um hvaða útvist hann hefði stundað í sumar og þar kom fram að útivist landans er mjög fjölbreytt, en á þriðja tug tegunda af útivist voru nefndar í könnuninni

Gönguferðirnar vinsælastar
Rétt um 75% aðspurðra höfðu farið í gönguferð í sumar. Þetta gerðu fleiri konur en karlar. Um 82% svarenda á aldrinum 40–59 ára höfðu farið í gönguferð í sumar en færri í yngsta hópnum, 29 ára og yngri, þar sem 71% hafði farið í gönguferðir.

Hjólreiðar vinsælar meðal fólks á fimmtugs- og sextugsaldri
Rétt um 26% stunduðu ýmist hjólreiðar eða fjallahjólreiðar í sumar. Þær voru algengari meðal karla en kvenna. Hjólreiðar eru lang vinsælastar meðal fólks á aldrinum 40–59 ára en tæplega 40% þeirra stunduðu ýmist hjólreiðar eða fjallahjólreiðar í sumar.

Fjórðungur Reykvíkinga farið í sund
Slétt 21% aðspurðra fór í sund í sumar, en athygli vekur fóru um 27% kvenna fóru í sund en aðeins um 15% karla. Sund er vinsælast meðal Reykvíkinga en fjórðungur þeirra fór í sund í sumar.

Yngsti hópurinn var öflugastur í hlaupum
Á bilinu 20-21% svarenda 29 ára og yngri stunduðu hlaup í sumar, sem var hærra hlutfall en meðal eldri svarenda.

Ýmiss önnur útivist var einnig nefnd til sögunnar og má þar nefna, golf, frisbígolf, garðvinna, hestamennska og veiði. Það er greinilegt að Íslendingar hafa verið iðnir við hvers kyns útiveru í sumar og ekki látið fremur lítilfjörlegt veður draga úr sér við að hreyfa sig undir berum himni.

Ítarlegri niðurstöður er að finna í pdf-skýrslu hér.

Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 1.069, en þeir eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 20. til 25. júlí 2022.

Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.

Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.

Aðrar fréttir