DAVÍÐ ODDSSON FÆR UM HELMING FYLGIS ÓLAFS RAGNARS EN NÁNAST EKKERT FRÁ GUÐNA TH.

Heim / Fréttir / DAVÍÐ ODDSSON FÆR UM HELMING FYLGIS ÓLAFS RAGNARS EN NÁNAST EKKERT FRÁ GUÐNA TH.

Í glænýrri könnun Maskínu (10.-13. maí 2016) kemur fram að tveir af hverjum þremur kjósendum hyggjast kjósa Guðna Th. Jóhannesson í kosningunum þann 25. júní nk. Birtur var listi yfir þá 14 frambjóðendur sem lýst hafa því yfir að þeir hyggist bjóða sig fram til forseta og spurt hvern fólk myndi velja. Tæplega 15% ætla að kjósa Davíð Oddsson og um 12% Andra Snæ Magnason. Halla Tómasdóttir nýtur fylgis um 3% en aðrir frambjóðendur fá hver um sig innan við 1%.

Tvöfalt fleiri karlar en konur styðja Davíð Oddsson en Guðni á heldur meira fylgi hjá konum en körlum en hlutfallið er jafnt hjá Andra Snæ á meðan 4-5% kvenna myndu velja Höllu en innan við 2% karla.

Andri Snær sækir mest fylgi til yngstu kjósenda en Davíð á mest fylgi meðal þeirra sem eru 55 ára og eldri.

Það kemur ekki á óvart að Davíð á mest fylgi meðal Sjálfstæðismanna en minnst meðal stjórnarandstöðuflokkanna. Guðni hefur fylgi meðal meirihluta kjósenda allra flokka nema Sjálfstæðisflokksins (þó hartnær 40% þeirra) en Andri Snær hefur mest fylgi meðal kjósenda Vinstri grænna.

Til þess að meta hvaða fylgi Davíð Oddsson dró til sín við það að bjóða sig fram spurði Maskína: Ef Davíð Oddsson hefði ekki boðið sig fram og Ólafur Ragnar Grímsson hefði ekki dregið sig til baka, hefðir þú þá kosið Guðna Th. Jóhannesson, Ólaf Ragnar Grímsson eða einhvern annan? Greining á niðurstöðum sýna skýrar línur þar sem Davíð Oddsson fengi næstum helming (48,9%) af fylgi Ólafs Ragnars en nánast ekkert (4%) af fylgi Guðna Th. Ríflega þriðjungur (34,7%) fylgis Ólafs Ragnars félli til Guðna Th.

Maskína spurði einnig hver væri næst besti kosturinn sem forseti Íslands. Næstum þriðjungur telur Andra Snæ næst besta kostinn, hartnær fjórðungur Höllu Tómasdóttur og hátt í fimmtungur Guðna Th. Um 45% þeirra sem ætla að kjósa Guðna finnst Andri Snær næst besti kosturinn, sléttum 28% finnst Halla næst besti kosturinn og 14,5% finnst Davíð vera næst besti kosturinn. Á bilinu 64-66% þeirra sem ætla að kjósa Andra eða Davíð finnst Guðni næst besti kosturinn. Einungis 2,2% þeirra sem ætla að kjósa Davíð finnst Andri Snær næst besti kosturinn og 3,1% þeirra sem ætla að kjósa Andra Snæ finnst Davíð vera næst besti kosturinn. Það virðist því vera sem fylgi muni ekki færast á milli Andra og Davíðs en líklegt að ef annar hvor þeirra drægi sig í hlé myndi fylgi Guðna aukast enn.

Ríflega sjö af hverjum tíu svarendum eru ánægðir með þá ákvörðun Ólafs Ragnars Grímssonar að hætta við að bjóða sig fram. Tæplega 6% eru mjög óánægð og rúmlega 7% fremur óánægð, samtals eru því um 13% óánægð með ákvörðunina.

Þá eykst ánægjan með ákvörðunina með aukinni menntun og það eru kjósendur stjórnarflokkanna sem eru óánægðari en kjósendur hinna flokkanna með ákvörðunina. Þeir sem ætla að kjósa Davíð eða aðra en Guðna, Andra Snæ eða Höllu eru óánægðari með ákvörðunina en hinir.

Svarendur voru 824 talsins, koma úr Þjóðgátt Maskínu, sem er panelhópur fólks sem er dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Svarendur eru af báðum kynjum, alls staðar að af landinu og á aldrinum 18-75 ára. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 10. apríl – 13. maí 2016.

Skýrsluna í heild sinni má nálgast hér.

Aðrar fréttir