ÓLAFUR RAGNAR MEÐ MEST FYLGI FORSETAFRAMBJÓÐENDA

Heim / Fréttir / ÓLAFUR RAGNAR MEÐ MEST FYLGI FORSETAFRAMBJÓÐENDA

Maskína hefur frá áramótum spurt opið hvern Íslendingar vilja fá sem næsta forseta. Spyrja þarf opið meðan framboðsfrestur er ekki liðinn. Tæplega 46% segjast myndu kjósa Ólaf Ragnar Grímsson, næstum fjórðungur Guðna Th. Jóhannesson og rösklega 15% Andra Snæ Magnason í síðustu mælingu Maskínu, 18.-29. apríl. Það virðist vera sem að eftir að Ólafur Ragnar sagðist vilja bjóða sig fram séu kjósendur fyrst og fremst að gera uppá milli þessara þriggja. Aðrir frambjóðendur fá minna en 2%.

Í nýjustu könnuninni, sem er gerð 18.-29. apríl, þ.e. eftir að Ólafur Ragnar Grímsson tilkynnti um að hann byði sig fram, taka um 68% afstöðu og velja frambjóðanda, ennþá er því nálægt þriðjungur sem á eftir að gera upp hug sinn.

Ólafur Ragnar á langmest fylgi meðal yngstu kjósendanna, meira en þrír af hverjum fjórum myndu kjósa hann, en 32-45% kjósenda í öðrum aldurshópum. Meira en 30% þeirra sem eru 45 ára og eldri myndu kjósa Guðna Th. en enginn kjósandi í yngsta hópnum segist ælta að kjósa hann. Andri Snær nýtur mests stuðnings meðal þeirra sem eru 25-44 ára, en rösklega 22% þeirra ætla að kjósa hann.

Ólafur Ragnar nýtur yfirburðafylgi meðal kjósenda Framsóknarflokksins því fjórir af hverjum fimm kjósendum ætla að kjósa hann og meira en sjö af hverjum tíu kjósendum Sjálfstæðisflokksins. Minnsta stuðning á hann meðal kjósenda Bjartrar framtíðar og Samfylkingar. Guðni Th. nýtur mestrar hylli meðal kjósenda Bjartrar framtíðar, Samfylkingar og Pírata en minnstan meðal kjósenda stjórnarflokkanna. Kjósendur stjórnarandstöðuflokkanna eru mun líklegri en kjósendur stjórnarflokkanna til að kjósa Andra Snæ og enginn Framsóknarmaður myndi kjósa hann samkvæmt nýjustu tölum.

Guðni Th. var ekki ofarlega í hugum kjósenda sem forsetaframbjóðandi fyrr en um eða eftir að Ólafur Ragnar Grímsson tilkynnti um sitt framboð, þ.e. eftir hina miklu umræðu í ríkisstjórnarskiptunum. Ólafur Ragnar mældist með 7-10% fylgi frá janúar til mars en fyrri partinn í apríl fór fylgið í tæplega 20% og svo í tæplega 46% eftir að hann ákvað framboð. Fylgi Andra Snæs hefur verið að vaxa frá því í janúar þegar það var tæplega 5%. Fylgi Höllu Tómasdóttur fór hæst í tæplega 6% fyrri partinn í apríl en lækkaði svo aftur eftir að Ólafur tilkynnti um framboð sitt.

Rétt er að taka fram að í þessari könnun er spurt opið: Hver vilt þú að verði næsti forseti Íslands? Svarendur skrifa svo nafn þess einstaklings sem þeir vilja fá.

Svarendur í janúar og febrúar voru 400 og þá voru mjög margir sem ekki tóku afstöðu. Í þremur nýjustu könnununum í mars og apríl voru svarendur á bilinu 870- 1080 í hverri könnun. Í mars tóku 45% afstöðu og nefndu ákveðið nafn en 51% í fyrri hluta aprílmánaðar og 68% í seinni hluta aprílmánaðar eins og fram hefur komið. Svarendur koma úr Þjóðgátt Maskínu, sem er panelhópur fólks sem er dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu, og úr Þjóðskrárúrtökum þar sem hringt var í fólk. Svarendur eru af báðum kynjum, alls staðar að af landinu og á aldrinum 18-75 ára. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina á þessum aldri prýðilega. Kannanirnar fór fram dagana 2. janúar – 29. apríl 2016.

Skýrsluna í heild sinni má nálgast hér.

Aðrar fréttir