ANDSTAÐA VIÐ SÖLU LÉTTVÍNS OG BJÓRS Í MATVÖRUVERSLUNUM EYKST

Heim / Fréttir / ANDSTAÐA VIÐ SÖLU LÉTTVÍNS OG BJÓRS Í MATVÖRUVERSLUNUM EYKST

Tæplega 35% Íslendinga eru hlynnt því að leyfa sölu léttvíns í matvöruverslunum en meirihluti, eða rösklega 52%, eru því andvíg. Andstaða við sölu léttvíns í matvöruverslunum hefur aukist frá því í árslok 2014 þegar um 39% voru því hlynnt og tæplega 45% andvíg.

Andstaða við sölu áfengis í matvöruverslunum eykst með hærri aldri, þannig eru næstum 71% þeirra sem eru yngri en 25 ára hlynnt sölunni en tæplega 16% þeirra sem eru 55 ára og eldri. Þá er andstaðan meiri utan höfuðborgarsvæðisins. Athygli vekur að þeir sem eru með börn undir 18 ára aldri á heimilinu eru hlynntari sölu léttvíns í matvöruverslun en þeir sem eru í annars konar heimilisgerð en hluti skýringarinnar er líklega sú að þar eru um yngsta hópinn að ræða. Einungis meirihluti kjósenda Bjartrar framtíðar er hlynntur sölu léttvíns í matvöruverslunum en andstaðan er mest meðal kjósenda Framsóknarflokks, Vinstrihreyfingarinnar Græns framboðs og Samfylkingarinnar.

Heldur fleiri eru hlynntir sölu bjórs í matvöruverslunum, eða rúmlega 37%, en meirihluti er einnig andvígur hér eða rétt ríflega helmingur. Andstaðan hefur einnig aukist hér, því í árslok 2014 voru rösklega 40% hlynnt sölu bjórs í matvöruverslunum og rösklega 45% andvíg. Það eru sami marktæki munurinn á milli bakgrunnshópa hér og í viðhorfi til léttvíns í matvöruverslunum.

Mjög lítið hefur breyst í viðhorfi almennings til sölu sterks áfengis í matvöruverslunum en þar er yfirgnæfandi meirihluti andvígur, eða meira en 71% svarenda.

Rúmlega 62% andvígir sölu á áfengi í matvöruverslunum

Þegar niðurstöður eru skoðaðar úr öllum spurningunum þremur kemur í ljós að rúmlega 62% eru ekki hlynntir (þeir sem eru andvígir eða í meðallagi) sölu á neinu áfengi í matvöruverslunum.

Svarendur, 807 manns, koma úr Þjóðgátt Maskínu, sem er panelhópur fólks sem er dregið með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Svarendur eru af báðum kynjum, alls staðar að af landinu og á aldrinum 18-75 ára. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu samkvæmt Þjóðskrá. Könnunin fór fram dagana 3.-10. febrúar 2016. Send var áminning þrisvar sinnum á þá sem ekki höfðu svarað.

Skýrsluna í heild sinni má nálgast hér.

Aðrar fréttir