FLEIRI ANDVÍGIR EN HLYNNTIR NÝJUM BÚVÖRUSAMNINGI

Heim / Fréttir / FLEIRI ANDVÍGIR EN HLYNNTIR NÝJUM BÚVÖRUSAMNINGI

Rúmlega 46% svarenda eru andvíg nýjum búvörusamningi sem undirritaður var nýlega en slétt 12% eru hlynnt honum. Naumlega 42% eru í meðallagi hlynnt eða andvíg samningnum.

Andstaða við nýjan búvörusamning er mest á meðal Reykvíkinga og nágranna þeirra en minnst á meðal Norðlendinga. Þannig eru á bilinu 57-58% Reykvíkinga andvígir nýjum búvörusamningi en um 26% Norðlendinga. Sömuleiðis eykst andstaðan við búvörusamninginn með hærra menntunarstigi þar sem rúmlega 53% svarenda með háskólapróf eru andvíg honum samanborið við tæplega 38% þeirra sem hafa grunnskólamenntun. Langhæst hlutfall kjósenda Framsóknarflokksins er hlynnt nýja samningnum, en rösklega 44% þeirra eru hlynnt samningnum, en þetta er eini bakgrunnshópurinn þar sem fleiri eru hlynntir samningnum en andvígir. Kjósendur Sjálfstæðisflokksins koma næstir Framsóknarmönnum, en næstum 19% kjósenda hans eru hlynnt samningnum. Þá er athyglisvert að því betur sem menn segjast hafa kynnt sér samninginn þeim mun andvígari eru þeir honum.

Meira en helmingur hefur lítið eða ekkert kynnt sér samninginn

Meira en helmingur svarenda segist hafa kynnt sér nýja búvörusamninginn illa eða alls ekki, en rúmlega 13% hafa kynnst sér samninginn fremur eða mjög vel.

Þekking á nýjum búvörusamningi er meiri á meðal karla en kvenna, þar sem tæplega fimmtungur karla hefur kynnt sér hann vel samanborið við slétt 7% kvenna. Þá eykst þekking á samningnum með hækkandi aldri og auknum tekjum. Þannig eru kjósendur Framsóknarflokksins mun líklegri en aðrir til að hafa kynnt sér samninginn vel.

Svarendur, 857 manns, koma úr Þjóðgátt Maskínu, sem er panelhópur fólks sem er dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Svarendur eru af báðum kynjum, alls staðar að af landinu og á aldrinum 18-75 ára. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 3.-9. mars 2016.

Skýrsluna í heild sinni má nálgast hér.

Aðrar fréttir