6 af hverjum 10 vilja Katrínu Jakobsdóttur sem næsta forsætisráðherra

Heim / Fréttir / 6 af hverjum 10 vilja Katrínu Jakobsdóttur sem næsta forsætisráðherra

Í nýrri Maskínukönnun var meirihluti svarenda sem sagðist helst vilja Katrínu Jakobsdóttur sem næsta forsætisráðherra eða tæplega 60% aðspurðra. Um 10% sagðist vilja Sigurð Inga Jóhannsson sem næsta forsætisráðherra og tæplega 8% Bjarna Benediktsson.

Af leiðtogum flokkanna í stjórnarandstöðu var það Þórhildur Sunna sem flestir vildu sjá sem næsta forsætisráðherra eða rúmlega 6% aðspurðra. Þar á eftir komu Logi Einarsson, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og að lokum Inga Sæland. Ríflega 2% sögðust vilja einhvern annan sem næsta forsætisráðherra en leiðtoga þeirra flokka sem eiga sæti á Alþingi.

Katrín var vinsælli á meðal kvenna en karla en því var öfugt farið hjá Bjarna Benediktssyni sem var vinsælli á meðal karla en kvenna. Lítill munur reyndist á vinsældum annarra formanna eftir kyni svarenda.

Þetta er í fjórða skipti sem Maskína spyr almenning um hvern hann vill helst sjá sem næsta forsætisráðherra og þegar fyrri mælingar eru bornar saman kemur ýmislegt áhugavert í ljós. Aldrei hafa fleiri nefnt Katrínu eða um 6 af hverjum 10. Þetta eru töluvert fleiri en þegar Maskína spurði síðast í september, en þá sögðust um 36% aðspurðra vilja Katrínu áfram sem forsætiráðherra. Um 10% vildu nú Sigurð Inga sem er mjög sambærilegt síðustu mælingu Maskínu í september. Það er hins vegar nokkuð hærra en í fyrri Maskínukönnunum í maí 2021 og desember 2020 þegar innan við 7% sögðust vilja hann sem næsta forsætisráðherra.

Aldrei hafa færri nefnt Bjarna Benediktsson heldur nú, eða tæplega 8% aðspurðra, en flestir nefndu hann í Maskínukönnun í desember þegar tæplega 17% vildu hann sem næsta forsætisráðherra. Allir leiðtogar stjórnarandstöðuflokkanna mælast nú lægri en í fyrri Maskínukönnunum.

Ítarlegri niðurstöður má finna í pdf skýrslu hér.

Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 946 talsins. Svarendur eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 27. september til 7. október 2021.

Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.

Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.

Aðrar fréttir