Skiptar skoðanur um söluna á Mílu

Heim / Fréttir / Skiptar skoðanur um söluna á Mílu

Í nýrri Maskínukönnun var almenningur spurður hvort hann hefði miklar eða litlar áhyggjur af sölu Mílu í hendur erlendra aðila. Ríflega 42% aðspurðra hafa miklar áhyggjur af því að Míla verði seld erlendum aðilum, en næstum 30% hafa af því litlar eða engar áhyggjur.

Þegar niðurstöðurnar eru rýndar eftir bakgrunni kemur í ljós að eftir því sem fólk eldist því meiri áhyggjur hefur það af sölunni. Íbúar höfuðborgarsvæðisins hafa minni áhyggjur af sölunni en íbúar á landsbyggðinni. Einnig kemur fram að eftir því sem menntunarstig hækkar minnka áhyggjurnar af sölunni og því hafa þeir sem hafa lokið háskólaprófi mun minni áhyggjur en þeir sem hafa lokið grunnskólaprófi.

Þegar stjórnmálaskoðanir svarenda eru skoðaðar teiknast upp mjög skýr mynd. Þar skera kjósendur Miðflokks og Sósíalistaflokks sig frá öðrum og hafa mestar áhyggjur af sölu Mílu. Kjósendur Sjálfstæðisflokks og Viðreisnar hafa minnstar áhyggjur.

Ítarlegri niðurstöður er að finna hér í pdf skýrslu.

Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 1338 talsins. Svarendur eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 26. október til 4. nóvember 2021.

Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.

Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.

Aðrar fréttir