Vinstri – hægri afstaða Íslendinga

Heim / Uncategorized @is / Vinstri – hægri afstaða Íslendinga

Maskína rannsakaði nýlega stjórnmálaafstöðu Íslendinga og lagði fyrir þá eftirfarandi spurningu:

„Í stjórnmálum er oft talað um „vinstri“ og „hægri“.Hvar myndir þú staðsetja þig á slíkum kvarða þar sem 0 þýðir lengst til vinstri og 10 þýðir lengst til hægri?“


Niðurstöður sýna að Íslendingar skilgreina sig að meðaltali rétt hægra megin við miðju, en meðaltalið var 5,17. Karlar eru hægri sinnaðri en konur, sem eru rétt örlítið vinstra megin við miðju. Yngsti hópurinn er mest vinstri sinnaður, tekjuhæsti hópurinn er mest hægri sinnaður og fólk með háskólapróf er mest vinstri sinnað.

Mestur breytileiki er þegar horft er til hvaða stjórnmálaflokk fólk myndi kjósa. Þar má segja að niðurstöður voru nokkurn veginn eins og fyrirfram mátti búast við sem styrkir þá kenningu að vinstri-hægri skipting sé enn við lýði á Íslandi. Þeir sem myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn eru áberandi mest hægri sinnaðir, en þar á eftir koma kjósendur Framsóknarflokksins. Kjósendur allra hinna flokkanna falla vinstra megin við miðju. Lengst til vinstri eru kjósendur Vinstrihreyfingarinnar-Græns framboðs, þar á eftir koma kjósendur Samfylkingar og svo nokkuð nær miðju kjósendur Bjartrar framtíðar. Kjósendur Pírata eru svo sá hópur sem hópast hvað mest í kringum miðju.

Myndin hér að neðan sýnir hvernig kjósendur dreifast eftir kvarðanum eftir því hvaða flokk þeir segjast myndu kjósa í dag.

 

Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu á netinu og fór fram dagana 27. september til 10. október 2013. Íslendingar á aldrinum 18-75 ára, af öllu landinu og báðum kynjum tóku þátt. Svarendur voru 810 og af þeim tóku 89% afstöðu. Gögnin eru vigtuð m.t.t. réttrar skiptingar kyns, aldurs og búsetu í Þjóðskrá.

Aðrar fréttir