Vilji til breyttra ferðavenja

Heim / Fréttir / Vilji til breyttra ferðavenja

Maskína hefur síðastliðið ár spurt höfuðborgarbúa hvernig þeir ferðist til og frá vinnu og hvernig þeir væru helst til í að ferðast þá leið. Alls hefur Maskína lagt þessar spurningar fyrir þrisvar sinnum. Fyrst í ágúst 2019, næst í febrúar 2020 og að lokum núna í júní síðastliðnum.

Í öllum mælingunum hefur hlutfall þeirra sem ferðast oftast sem bílstjórar á einkabíl verið langhæst en í ágúst 2019 ferðuðust tæplega 72% oftast þannig. Hlutfallið hefur þó farið lækkandi en nú í júní ferðuðust rúmlega 63% oftast á einkabíl sem bílstjórar.

Mesta aukningin á milli ára hefur verið hjá þeim sem ferðast oftast á reiðhjóli, en í ágúst 2019 ferðuðust tæplega 7% íbúa oftast á þann máta en í júní 2020 var hlutfallið komið upp í rúmlega 10%. Hlutfallið var þó á bilinu 4-5% í febrúar.

Þegar höfuðborgarbúar voru spurðir hvernig þeir væru helst til í að ferðast í vinnuna svöruðu ávallt flestir að þeir myndu helst vilja ferðast sem bílstjórar í einkabíl. Líkt og hlutfall þeirra sem ferðast oftast á einkabíl þá hefur hlutfall þeirra sem vilja helst ferðast á einkabíl lækkað á milli ára. Í ágúst 2019 var hlutfall þeirra á bilinu 42-43% en nú í júní 2020 var hlutfallið ríflega 35%.

Í öllum mælingunum hafa yfir 19% íbúa helst viljað ferðast fótgangandi en mesta aukning á milli ára er í fjölda þeirra sem helst vilja ferðast á reiðhjóli, um 20% í ágúst 2019 en næstum því 27% í júní síðastliðnum.

Í öllum mælingunum er mikill munur á hlutfalli þeirra sem ferðast oftast til og frá vinnu á einkabíl sem bílstjórar og þeirra sem vilja helst ferðast á þann máta. Í júní síðastliðnum munaði 28 prósentustigum þar á. Þegar spurningarnar eru keyrðar saman má ennfremur sjá að af þeim sem ferðuðust oftast sem bílstjórar á einkabíl vildu á milli 50-51% oftast ferðast á þann máta. Rúmlega 21% bílstjóra væru helst til að ferðast á reiðhjóli, tæplega 14% fótgangandi og um 6% í strætó.

Þegar nýjasta mælingin er rýnd nánar má sjá að lítill munur er á ferðamáta eftir kyni fyrir utan að karlar (13,4%) eru líklegri en konur (6,5%) til þess að ferðast oftast á reiðhjóli. Jafnframt má sjá að fólk á fimmtugsaldri er líklegasti hópurinn til að hjóla oftast til og frá vinnu en slétt 20% þeirra gera svo.

Þegar spurningin um hvernig höfuðborgarbúar væru helst til í að ferðast til vinnu er skoðuð eftir bakgrunni sést að því eldri sem svarendur eru þeim mun líklegri eru þeir til að vilja helst ferðast á einkabíl sem bílstjórar. Af íbúum sextíu ára og eldri vilja rúm 55% helst ferðast á einkabíl sem bílstjórar en rúm 28% íbúa 18-29 ára. Sextíu ára og eldri eru þó þeir líklegustu til að vilja verðast í strætó, en á milli 10-11% þeirra vilja helst ferðast á þann máta.

Spurningarnar voru einungis lagðar fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins sem eru á vinnumarkaði, 18 ára og eldri. Svarendur í öllum mælingunum koma úr Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem er dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Nýjasta mælingin fór fram dagana 19. til 26. júní 2020 og voru svarendur 397. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega.

Nánari upplýsingar má finna hjá Þóru Ásgeirsdóttur í síma 578-0125 eða hjá thora@maskina.is.

Aðrar fréttir