Fleiri andvígir því að senda egypsku Kehr-fjölskylduna úr landi heldur en hlynntir

Heim / Fréttir / Fleiri andvígir því að senda egypsku Kehr-fjölskylduna úr landi heldur en hlynntir

Tæplega 58% Íslendinga eru andvíg því að senda egypsku Kehdr-fjölskylduna úr landi en rúmlega 24% eru hlynnt því og um 18% eru í meðallagi.

Hærra hlutfall karla en kvenna er hlynnt því að senda fjölskylduna úr landi, um 31% karla samanborið við tæp 17% kvenna. Eldri svarendur eru einnig að öllu jöfnu hlynntari því að senda fjölskylduna úr landi heldur en yngri, rétt tæp 9% í aldurshópnum 18-29 ára eru hlynnt því en rúm 39% í hópi 50-59 ára. Með hærri tekjum aukast líkur á því að fólk vilji senda fjölskylduna úr landi. Þeir sem hafa háskólamenntun vilja í meiri mæli halda fjölskyldunni á landinu en þeir sem minni menntun hafa.

Af svarendum sem segjast styðja ríkisstjórnina þá eru slétt 29% hlynnt því að senda fjölskylduna úr landi en á milli 19-20% sem styðja hana ekki eru hlynnt því. Að auki má sjá að kjósendur Miðflokksins (66,9%) og Sjálfsæðisflokksins (51,(%) eru líklegastir til að vilja senda fjölskylduna úr landi en kjósendur Samfylkingarinnar (84,2%), Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs (79,7%), Pírata (73,7%) og Viðreisnar (72,3%) eru því andvígari. Athygli vekur að kjósendur Framsóknarflokksins voru líklegastir til að vera í meðallagi hlynntir/andvígir og mjög skiptar skoðanir voru á meðal kjósenda Flokks fólksins.

Svarendur voru 879 talsins, koma úr Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem er dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Svarendur eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 24.-28. september 2020 þannig að hluti svarenda svaraði eftir að ljóst var að fjölskyldan fengi dvalarleyfi.

Nánari upplýsingar má finna hjá Þóru Ásgeirsdóttur í síma 578-0125 eða hjá thora@maskina.is.

Aðrar fréttir