Maskína hefur frá árinu 2021 lagt fyrir spurningu um afstöðu almennings til laxeldis í sjókvíum við strendur landsins. Nú liggja fyrir niðurstöður ársins 2023 og sýna þær að andstaða almennings hefur aldrei mælst meiri en núna.
Hátt í 60% andvíg
Það er í fyrsta sinn núna sem að niðurstöður Maskínu sýna meira en helming aðspurðra andvíga laxeldi í sjó. Fyrir um ári síðan voru 43% andvíg en í ár hefur bæst duglega í þann hóp eða um ein 14 prósentustig og eru því 56-57% andvíg því nú. Að sama skapi hefur sá hópur sem er hlynntur slíku eldi dregist nokkuð saman frá fyrri árum. Í ár segjast næstum 15% aðspurðra hlynnt laxeldi í sjó en síðastliðin tvö ár hefur sá hópur verið 21-22%.
Minni andstaða á landsbyggðinni
Áhugavert er að skoða niðurstöðurnar eftir búsetu. Andstaðan er minni í landsbyggðarkjördæmunum að Suðurkjördæmi undanskildu en þar eru 59% íbúa andvíg laxeldi í sjó sem er sambærilegt niðurstöðum fyrir höfuðborgarsvæðið. Rétt innan við helmingur íbúa í hinum þremur landsbyggðarkjördæmunum er andvígur sjóeldinu Þessar niðurstöður eru þó mjög ólíkar þeim sem Maskína birti fyrir um ári þar sem stuðningurinn hefur dregist mikið saman. Ríflega 40% svarenda á Vesturlandi og Vestfjörðum voru þá hlynnt laxeldi í sjó samanborið við 23% nú. Sömu sögu er að segja af Austurlandi, þótt sveiflan sé ekki jafn mikil, þar sem tæplega 30% voru hlynnt eldinu fyrir um ári síðan en nú hefur sá hópur dregist saman í 23%.
Stjórnmálaskoðun skiptir máli
Talsverðan breytileika er að sjá á afstöðu svarenda eftir stjórnmálaskoðun þeirra. Þannig eru kjósendur þriggja flokka sem skera sig frá öðrum og eru mun hlynntari laxeldi í sjó en kjósendur annarra flokka. Það eru kjósendur Sjálfstæðisflokksins, þar sem stuðningurinn er mestur eða rúmlega þriðjungur, kjósendur Miðflokksins, þar sem stuðningurinn er innan við 30%, og kjósendur Framsóknarflokksins, en rétt um 20% þeirra eru hlynnt laxeldi í sjó. Á hinum endanum er svo að finna kjósendur Pírata og Sósíalistaflokksins þar sem andstaðan er mest. Slétt 82% kjósenda Pírata eru andvíg eldinu og um 90% kjósenda Sósíalistaflokksins.
Ítarlegri niðurstöður má finna í pdf-skýrslu hér.
Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 559, en þeir eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 16. til 21. mars 2023.
Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.
Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.