Það hefur gustað um ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur undanfarnar vikur og má segja að hver atburðurinn hefur rekið annan Sigurður Ingi lenti í kröppum dansi á nýafstöðnu Búnaðarþingi og í kjölfar þess hefur Bjarni Benediktsson verið í eldlínunni vegna framkvæmdar á sölu hlutar ríkisins í Íslandsbanka. Maskína hefur mælt traust til ráðherra ríkisstjórnarinnar um nokkurra ára skeið og spurði almenning nú í lok aprílmánaðar um traust til þeirra sem nú sitja í ráðherrastólum.
Jón Gunnarsson er sá eini þar sem traust almennings minnkar ekki
Niðurstöðurnar eru býsna sláandi og sýna að traust til allra ráðherra í ríkisstjórninni mælist nú minna en þegar spurt var í nóvember 2021 fyrir utan einn ráðherra. Sá sem lækkar ekki í trausti er Jón Gunnarsson en hann stendur í stað þótt hann hafi minnst traust allra ráðherranna. Aðeins tæplega 18% segjast treysta Jóni Gunnarssyni mikið, en hann sinnir hlutverki dómsmálaráðherra í 2 ár af þessu kjörtímabili.
Ráðherrar Sjálfstæðisflokksins raða sér á botninn
Formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðaherra, Bjarni Benediktsson, er í svipaðri stöðu og Jón Gunnarsson þar sem rúmlega 18% treysta Bjarna mikið. Ólíkt Jóni hefur fólki sem segjast treysta honum mikið fækkað um helming frá því sl. haust eða um 19 prósentustig. Næst fyrir ofan Bjarna og Jón er svo þriðji ráðherra Sjálfstæðisflokksins, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir nýsköpunar-, iðnaðar- og háskólaráðherra, og segjast 22% aðspurðra treysta henni mikið.Þessir þrír ráðherrar eru einnig í sérflokki ef horft til þess fjölda sem segist bera lítið traust til þeirra en meira en helmingur ber lítið traust til þeirra. Um 52% bera lítið traust til Áslaugar Örnu og Jóns en ríflega 70% bera lítið traust til Bjarna.
Sigurður Ingi tekur mestu dýfuna
Þegar mælingarnar frá sl. hausti og nú eru bornar saman sést að mest dregst traustið saman hjá Sigurði Inga Jóhannssyni, innviðaráðherra og formanni Framsóknarflokksins, eða um 22 prósentustig meðal þeirra sem segjast bera mikið traust til hans. Þannig minnkar traust til formanna ríkisstjórnarflokkanna meira en til annarra ráðherra. Nú sögðust 32-33% aðspurðra bera mikið traust til Sigurðar Inga og um 39% lítið traust. Til samanburðar voru rétt um 55% sem sögðust bera mikið traust til hans sl. haust og um 18% lítið traust.
Ásmundur Einar trónir á tindinum annað árið í röð
Traust til Ásmundar Einars Daðasonar skóla- og barnamálaráðherra hefur dregist nokkuð saman frá árinu 2021 en hann er þó aftur sá ráðherra sem flestir bera mikið traust til. Samkvæmt þessum niðurstöðum nýtur hann mikils traust meðal rúmlega helmings landsmanna. Rúmlega 18% bera lítið traust til Ásmundar Einars og er sá hópur ekki eins lítill hjá neinum öðrum ráðherra. Áhugavert er að sjá að hann nýtur trausts þvert á flokka þó svo að það sé áberandi mest meðal kjósenda Framsóknarflokksins og minnst meðal kjósenda Sósíalistaflokksins.
Saxast af trausti Katrínar
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra virðist vera í sömu stöðu og kollegar hennar í formannsstöðu, þeir Sigurður Ingi og Bjarni, og segjast mun færri treysta henni mikið núna en í fyrrahaust og hefur sá hópur dregist saman um 17 prósenturstig á milli mælinga. Rétt um 45% aðspurðra segjast treysta Katrínu mikið og um 35% segjast treysta henni lítið. Þetta er talsverð breyting frá haustinu 2021 þegar ríflega 61% sagðist treysta henni mikið. Katrín er eini flokksformaðurinn í ríkisstjórninni sem raðast efst af samflokksráðherrum sínum á listann en bæði innan Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins eru það aðrir ráðherrar en formennirnir sem njóta meira trausts meðal almennings.
Tveir af þremur ráðherrum sem njóta mests trausts eru Framsóknarmenn
Auk Ásmundar Einars og Katrínar er einn ráðherra til viðbótar sem fleiri segjast bera mikið traust til en lítið. Þetta er Willum Þór Þórsson sem situr í sæti heilbrigðisráðherra. Ríflega 40% aðspurðra segjast bera mikið traust til Willums Þórs en rúmlega 27% segjast bera lítið traust til hans. Um alla aðra ráðherrana níu segjast fleiri bera lítið traust til þeirra en mikið.
Ítarlegri niðurstöður má finna í pdf-skýrslu hér.
Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) á netinu, dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá. Alls voru svarendur 929, en þeir eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 20. til 25. apríl 2022.
Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.
Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.