Samfylkingin mælist stærst í borginni en Sjálfstæðisflokkurinn fylgir fast á hæla hennar

Heim / Fréttir / Samfylkingin mælist stærst í borginni en Sjálfstæðisflokkurinn fylgir fast á hæla hennar

Núna þegar tæpar tvær vikur eru til sveitarstjórnarkosninga eru frambjóðendur flokkanna á ferð og flugi við að kynna sig og sín stefnumál. Það er ljóst að kjósendur eru í óðaönn að gera upp hug sinn og sýna mælingar síðustu mánaða að talsverð hreyfing er á fylginu. Það stefnir því í spennandi lokasprett í kosningabaráttunni og áhugaverðar kosningar sem fara fram laugardaginn 14. maí. Maskína hefur mælt fylgi stjórnmálaflokkanna sem bjóða fram í Reykjavík mánaðarlega og birtir hér niðurstöður könnunar sem fór fram 8. apríl til 2. maí.

Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn bítast um að vera stærsti flokkurinn
Líkt og í síðustu kosningum og fyrri mælingum eru það tveir flokkar, Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn, sem hafa verið með mest fylgi í borginni.Maskínukönnun sem birt var í byrjun apríl sýndi þessa tvo flokka skipta á milli sín um helmingi atkvæða en núna hefur fylgi þeirra beggja dregist örlítið saman. Nú mælist Samfylkingin, flokkur borgarstjóra, með ríflega 23% sem er 2-3% prósentustigum minna en í síðustu Maskínukönnun og einnig 2-3% prósentustigum minna en Samfylkingin uppskar í síðustu kosningum. Sjálfstæðisflokkurinn gefur sömuleiðis eftir og mælist nú með innan við 21% fylgi sem er tæplega 5% prósentustigum minna en í síðustu Maskínukönnun. Þetta er töluvert undir kjörfylgi flokksins í síðustu kosningum þegar hann uppskar um 31% atkvæða og var stærsti flokkurinn.

Samstarfsflokkar Samfylkingarinnar í borgarstjórn bæta við sig á milli mælinga
Píratar, Viðreisn og Vinstri græn bæta öll við sig fylgi frá síðustu Maskínukönnun sem birtist í byrjun apríl og mælast Píratar nú þriðji stærsti flokkurinn í borgarstjórn með 14-15% fylgi. Það er hátt í tvöfalt fylgi sem flokkurinn fékk í síðustu kosningum þegar Píratar fengu tæplega 8% fylgi. Viðreisn sækir sömuleiðis í sig veðrið og mælist nú með 9% fylgi sem er nokkuð meira en í kosningunum 2018 og rúmlega 3 prósentustigum meira en flokkurinn mældist með í síðustu MaskínukönnunVinstri græn mælast nú með um 7% fylgi sem er rúmlega 2 prósentustigum meira en flokkurinn mældist með í síðustu könnun og sömuleiðis rúmlega 2 prósentustigum meira en kjörfylgi þeirra var fyrir fjórum árum.

Fylgi Framsóknarflokksins sígur lítillega á milli mælinga
Framsóknarflokkurinn hefur verið á miklu flugi undanfarnar vikurog hefur mælst mun stærri en í síðustu kosningum þegar flokkurinn náði engum fulltrúa inn í borgarstjórn. Framsóknarflokkurinn mælist nú minni en í Maskínukönnun sem birtist í apríl þegar flokkurinn var með 14% fylgi, en nýjustu mælingu Maskínu segjast rúmlega 12% borgarbúa ætla að kjósa Framsóknarflokkinn sem er langt yfir kjörfylgi hans árið 2018 þegar flokkurinn fékk rétt rúmlega 3% atkvæða.

Flokkur fólksins og Sósíalistar nálægt kjörfylgi sínu 2018
Bæði Flokkur fólksins og Sósíalistar mælast nú með mjög svipað fylgi og flokkarnir uppskáru í síðustu sveitarstjórnarkosningum árið 2018. Sósíalistar eru nú með 7% sem er um hálfu prósentustigi meira en kjörfylgi þeirra 2018 og Flokkur fólksins með 4% sem er innan við hálfu prósentustigi minna en flokkurinn fékk í kosningunum 2018.

Miðflokkurinn er áfram minnstur
Líkt og í undanförnum mælingum Maskínu er Miðflokkurinn minnstur þessara flokka og mælist nú með ríflega 2% fylgi.

Ítarlegri niðurstöður má finna í pdf-skýrslu hér.

Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 825, en þeir eru á aldrinum 18 ára og eldri og búsettir í Reykjavík. Könnunin fór fram 8. apríl til 2. maí 2022.

Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar til helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.

Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.

Aðrar fréttir