Hafa atburðir nýliðinna daga áhrif á fylgi flokkanna?

Heim / Fréttir / Hafa atburðir nýliðinna daga áhrif á fylgi flokkanna?

Það hefur ekki ríkt lognmolla í íslenskum stjórnmálum að undanförnu. Óviðurkvæmileg ummæli formanns Framsóknarflokksins hafa dregið dilk á eftir sér sem og eftirmálar af lokuðu útboði á Íslandsbanka. Maskína birtir fylgi stjórnmálaflokkanna á landsvísu mánaðarlega og að þessu sinni var fylgið fyrir og eftir nýliðna atburði einnig skoðað.

Allir ríkisstjórnarflokkarnir missa fylgi
Sjálfstæðisflokkurinn, sem mælist stærstur flokka, er nú með 22-23% fylgi sem er 2 prósentustigum minna en flokkurinn var með í Maskínukönnun marsmánaðar. Framsóknarflokkurinn gefur sömuleiðis eftir og mælist nú með 15-16% en var með rúmlega 17% í síðasta mánuði. Vinstri græn dala aðeins um hálft prósentustig með mælast nú með tæp 9%. Þegar fylgi flokkanna er skoðað annars vegar fyrir og hins vegar eftir nýliðna atburði sést að ríkisstjórnarflokkarnir mælast hver með tæplega 2–3 prósentustigum minna fylgi eftir en fyrir sölu Íslandsbanka og Búnaðarþing. Það gerir samanlagt fylgi upp á 41–42% eftir atburðina. Flokkur Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, missir þannig ríflega fjórðung fylgi síns á milli mælinga eftir umrædda atburði.

Viðreisn og Samfylkingin bæta við sig
Fylgi Viðreisnar er núna 10–11% sem er aukning upp á 2 prósentustig frá mælingu marsmánaðar. Samfylkingin er nú með 13% fylgi og bætir sömuleiðis við sig smávægilegu fylgi frá því í mars þegar hún mældist með 12%.

Mestur munur á Pírötum og Samfylkingunni fyrir og eftir Búnaðarþing og sölu Íslandsbanka
Píratar mælast með svipað fylgi og í marsmánuði og eru nú með rúmlega 13%. Það er áhugavert að sjá að þegar fylgið er skoðað fyrir og eftir Búnaðarþing og söluna á Íslandsbanka eru það Píratar og Samfylkingin sem bæta mestu við sig. Samfylkingin mælist rúmlega 4 prósentustigum stærri eftir þá atburði en fyrir og Píratar tæpum 7 prósentustigum stærri heldur en fyrir nýliðna atburði.

Litlar breytingar á fylgi Flokks fólksins
Í Maskínukönnunum sem af eru ári hefur fylgi Flokks fólksins verið fremur stöðugt og hefur flokkurinn mælst með á bilinu 7–9% fylgi. Athygli vekur að töluverðan mun má sjá á fylgi flokksins fyrir og eftir Búnaðarþing og sölu Íslandsbanka, þar sem flokkurinn mælist með rétt um 5% eftir þá atburði.

Miðflokkurinn og Sósíalistar á svipuðum slóðum.
Miðflokkurinn mælist áfram minnstur þeirra flokka sem eiga sæti á Alþingi með rúmlega 4% fylgi. Sósíalistaflokkurinn er á svipuðum slóðum með 4–5% fylgi og bætir við sig ríflega 1 prósentustigi frá Maskínukönnun í mars.

Ítarlegri niðurstöður má finna í pdf-skýrslu hér.

Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 1.367, en þeir eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 17. mars til 12. apríl 2022.

Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.

Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.

 

Aðrar fréttir