Þeim sem hafa aðgang að skotvopnum fer fjölgandi

Heim / Fréttir / Þeim sem hafa aðgang að skotvopnum fer fjölgandi

Maskína spyr nú þriðja árið í röð um viðhorf almennings til skotvopna á Íslandi og hvort fólk hafi aðgang að skotvopnum. Niðurstöðurnar sýna að þeim sem hafa aðgang að skotvopnum fjölgar lítillega á milli ára en 21% svarenda í könnuninni hafa aðgang að skotvopni. Fjölgað hefur um rúm 3 prósentustig í þessum hópi frá því að fyrst var spurt árið 2021.

Aðgangur að skotvopnum meiri á landsbyggðinni
Talsverður munur er á aðgangi almennings að skotvopnum eftir búsetu hans. Þannig er aðgangurinn minnstur meðal íbúa á höfuðborgarsvæðinu og nágrannasveitafélögum þess en þar hafa 15-16% aðgang að skotvopnum. Mun fleiri hafa aðgang að skotvopnum á bæði Vesturlandi og Vestfjörðum og á Norðurlandi eða um þriðjungur. Aftur á móti er aðgangurinn enn meiri á Austurlandi þar sem tæplega 40% aðspurðra sögðust hafa aðgang að skotvopnum. Mikill munur er á kynjunum en konur hafa í mun minni mæli aðgang að skotvopnum eða um 9% svarenda á móti rétt um þriðjungi karla.

Um þriðjungur hefur litlar áhyggjur af skotvopnaeign á Íslandi
Þegar Maskína lagði spurningar um skotavopn fyrst fyrir árið 2021 hafði hátt í helmingur svarenda litlar áhyggjur af skotvopnaeign á landinu. Sú afstaða hefur breyst töluvert en í ár hefur um þriðjungur svarenda litlar áhyggjur af skotvopnaeign. Þá hefur þeim sem hefur hafa af þessu miklar áhyggjur fjölgað frá árinu 2021 en í fyrra taldi sá hópur 47-48% svarenda en örlítið færri í ár eða 46%.

Ítarlegri niðurstöður er að finna í pdf-skýrslu hér.

Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 1.092, en þeir eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 16. til 21. mars 2023.

Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.

Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.

Aðrar fréttir