Þeim fjölgar sem vilja heimila sölu áfengis í matvöruverslunum

Heim / Fréttir / Þeim fjölgar sem vilja heimila sölu áfengis í matvöruverslunum

Ólíkt því sem þekkist í flestum nágrannalöndum okkur hafa Íslendingar ekki kost á því kaupa áfenga drykki í matvöruverslunum. Undanfarin sex ár hefur Maskína lagt þá spurningu fyrir almenning um hvort rétt væri að heimila sölu áfengis í matvöruverslunum og niðurstöðurnar í ár sýna að sífellt fleiri eru hlynntir þeirri breytingu.

Ríflega helmingur vill léttvín og bjór í matvörubúðir
Nokkurn stíganda má sjá í niðurstöðunum meðal þeirra sem eru hlynntir því að selt sé léttvín og bjór í matvörubúðum á milli ára en í ár telur sá hópur í fyrsta skipti yfir helming svarenda. Þetta er nokkurra prósentustiga aukning frá árinu 2022. Sömu sögu er að segja þegar spurt var um sölu á sterku áfengi en þar má einnig sjá aukningu á milli ára. Um fjórðungur svarenda er hlynntur sölu á sterku áfengi í matvörubúðum.

Skiptar skoðanir eftir stjórnmálaskoðun
Kjósendur Viðreisnar og Sjálfstæðisflokksins skera sig frá kjósendum annarra flokka því þeir eru mun hlynntari sölu áfengis í matvöruverslunum en aðrir. Mestu andstöðuna er að sjá meðal kjósenda Vinstri grænna, Sósíalistaflokksins og Samfylkingarinnar.

Ítarlegri niðurstöður er að finna í pdf- skýrslu hér.

Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 1.036, en þeir eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 3. til 7. febrúar 2023.

Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.

Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.

 

 

Aðrar fréttir