Sveifla á Samfylkingunni

Heim / Fréttir / Sveifla á Samfylkingunni

Mánaðarleg fylgismæling Maskínu er komin út fyrir febrúarmánuð 2023 og sýna niðurstöðurnar Samfylkinguna sem stærsta flokkinn á landsvísu annan mánuðinn í röð (ríflega 23%). Sjálfstæðisflokkurinn kemur fast á hæla hennar, þremur prósentustigum lægri, en ef tekið er tillit til vikmarka skarast fylgi þessara tveggja stærstu of mikið svo munurinn á þeim er varla marktækur. Undanfarnar Maskínukannanir sýna að stígandi hefur verið í fylgi Samfylkingarinnar en á sama tíma hefur fylgi Sjálfstæðisflokksins verið stöðugt í kringum 20%.

Fylgi Pírata og Framsóknar er svipað
Fylgi Pírata hefur rokkað á bilinu 10–13% að undanförnu en samkvæmt þessari könnun sögðust næstum 13% aðspurðra veita Pírötum atkvæði sitt ef kosið væri núna. Það er fimm prósentustigum meira en flokkurinn fékk upp úr kjörkössunum í síðustu kosningum. Fylgi Framsóknar er á svipuðu róli eða rúmlega 12%, öfugt við Pírata er það fimm prósentustigum minna en flokkurinn uppskar í síðustu kosningum. Fylgi Framsóknar hefur haldist stöðugt í um 12%  upp á síðkastið samkvæmt Maskínukönnunum.

Dregur af flokki forsætisráðherra
Vinstri græn, flokkur forsætisráðherra, mælist í þessari könnun með tæplega 7% fylgi sem er það minnsta sem flokkurinn hefur mælst með á yfirstandandi kjörtímabili. Samkvæmt þessari könnun eru um sex prósentustigum færri sem myndu kjósa flokkinn nú en gerðu það í síðustu Alþingiskosningum þegar fylgi flokksins var 12,6%.

Viðreisn og Miðflokkur í sínu kjörfylgi
Fylgi Viðreisnar hefur nú næstum nákvæmlega sama fylgi og í síðustu Alþingiskosningum en í undanförnum könnunum Maskínu hefur flokkurinn mest verið með í kringum 9% fylgi. Miðflokkurinn mælist sömuleiðis mjög nærri kjörfylgi sínu frá síðustu kosningum eða í kringum 6%. Fylgi Miðflokks hefur haldist nokkuð stöðugt í kringum 6-7% undanfarið samkvæmt Maskínu.

Sósíalistar og Flokkur fólksins bæta í frá síðustu könnun
Sósíalistar, sem ekki náðu manni inn á þing í síðustu kosningum, hafa mælst frá 4% og upp í 7% hjá Maskínu að undanförnu. Í þessari febrúarkönnun er flokkurinn með 5% fylgi sem er örlítið meira en könnun janúar sýndi. Flokkur fólksins bætir einnig við sig tæplega einu prósentustigi á milli mánaða og sögðust um 6% aðspurðra í þessari könnun kjósa flokkinn ef gengið væri til kosninga nú.

Samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokkanna ekki mælst minna á kjörtímabilinu
Það ber svo við í þessari könnun að samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokkanna hefur aldrei mælst minna en núna. Fram til þessa hafði það ekki farið undir 40% á kjörtímabilinu en er nú um 39%. Þess má geta að þessir þrír flokkar sem nú mynda ríkisstjórn voru með ríflega 54% atkvæða á bak við sig þegar ríkisstjórnin var mynduð. Samkvæmt þessum niðurstöðum hafa þeir týnt um 15 prósentustigum atkvæða sinna það sem af er kjörtímabilinu.

Ítarlegri niðurstöður er að finna í pdf-skýrslu hér.

Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 1.892, en þeir eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 3. til 13. febrúar 2023.

Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.

Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.

Aðrar fréttir