Skiptar skoðanir um gæludýr á veitingastöðum

Heim / Fréttir / Skiptar skoðanir um gæludýr á veitingastöðum

Í nýlegri Maskínukönnun var spurt um viðhorf fólks til þess að gæludýr, hundar og kettir, kæmu með eigendum sínum á veitingastaði. Sitt sýnist hverjum.
Niðurstöðurnar sýna að fleiri eru andvígir því að gæludýr komi með eigendum sínum á veitingastaði en eru hlynntir, þar sem um 47% eru andvíg því en tæplega 33% hlynnt.

Konur og yngri svarendur hlynntari
Konur eru frekar á þeirri skoðun að gæludýr séu velkomin með á veitingastaði en karlar. Þá er augljós munur á afstöðu fólks eftir aldri en meðal svarenda undir 40 ára aldri voru töluvert fleiri hlynntir gæludýrum á veitingastöðum en meðal þeirra sem eldri eru.

Sveiflur eftir stjórnmálaskoðun
Þegar niðurstöðurnar eru rýndar eftir stjórnmálaskoðun kemur í ljós að andstaðan við gæludýr á veitingastöðum er mest meðal kjósenda Miðflokksins og Sósíalistaflokksins auk kjósenda Sjálfstæðisflokksins. Kjósendur Pírata og Vinstri grænna voru jákvæðastir gagnvart gæludýrum á veitingastöðum ásamt kjósendum Viðreisnar.

Ítarlegri niðurstöður má finna hér í pdf–skýrslu.

Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 902 talsins. Svarendur eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 6. til 17. janúar 2022.

Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningu um niðurstöður þeirra.

Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er, sem sé frá Maskínu.

Aðrar fréttir