Sjálfstæðisflokkurinn og VG bæta í

Heim / Fréttir / Sjálfstæðisflokkurinn og VG bæta í

Maskína mælir fylgi stjórnmálaflokkanna á landsvísu mánaðarlega og nú liggur fyrir mæling febrúarmánaðar. Tveir af þremur ríkisstjórnarflokkunum bæta við sig fylgi frá janúarmælingu Maskínu en það eru Sjálfstæðisflokkurinn og VG. Framsóknarflokkurinn gefur lítið eitt eftir en er nálægt kjörfylgi sínu.

Sjálfstæðisflokkurinn bætir í

Niðurstöðurnar sýna að Sjálfstæðisflokkurinn er áfram stærsti flokkur landsins og mælist nú með um 22% fylgi sem er tæplega 2 prósentustigum meira en í janúarmælingu Maskínu. Framsóknarflokkurinn er svo næst stærstur flokkanna á landsvísu með um 17% sem er mjög sambærilegt og kjörfylgi flokksins var í kosningunum sl. haust. Frá síðustu mælingu hefur bilið á fylgi Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar aukist örlítið, en það hafði aldrei mælst minna í könnun Maskínu en í janúar þegar munurinn á flokkunum var aðeins rúmlega 2 prósentustig.

Samfylkingin bætir við sig

Samfylkingin mælist þriðji stærsti flokkurinn á landsvísu með 13–14% í febrúarmælingu Maskínu. Það er talsvert meira en flokkurinn uppskar í kosningunum. VG mælist nú með mjög sambærilegt fylgi og þau uppskáru úr kjörkössunum eða rétt um 13%.

Píratar í niðursveiflu

Píratar mælast mun minni en í mælingu Maskínu í janúar en eru þó yfir kjörfylgi sínu þegar þeir uppskáru 8-9% atkvæða. Núna mælast Píratar með rúmlega 10% fylgi sem er rúmlega 3 prósentustigum minna en í síðasta mánuði. Fylgi Viðreisnar hefur tosast upp samkvæmt Maskínukönnunum síðan gengið var til kosninga og mælist fylgi hennar tæplega 10% sem er dálítið meira en flokkurinn uppskar í kosningunum sl. haust. Flokkur fólksins hefur tapað nokkru fylgi jafnt og þétt í mælingum Maskínu frá kosningunum og mælist nú með 7–8% sem er litlu minna en kjörfylgi flokksins.

Miðflokkurinn og Sósíalistar reka lestina

Líkt og í undanförnum mælingum Maskínu mælast Miðflokkurinn og Sósíalistar með minnst fylgi og nær hvorugur flokkurinn að brjóta 5% múrinn. Fylgi Miðflokksins mælist núna um 4% sem er mjög sambærilegt því sem hann mældist með í janúarmánuði. Það er aftur á móti 1–2 prósentustigum minna en flokkurinn fékk í sl. kosningum. Sömu sögu er að segja af Sósíalistaflokknum sem mælist nú með 3–4% fylgi sem er mjög svipað og í janúarmælingu Maskínu. Það er örlítið minna en flokkurinn hlaut í kosningunum þegar hann uppskar um 4% atkvæða.

Ítarlegri niðurstöður má finna hér í pdf skýrslu.

Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 3039 og voru þeir alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 28. janúar til 16. febrúar 2022.

Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.

Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.

Aðrar fréttir