Samfylkingin stærst í Borginni

Heim / Fréttir / Samfylkingin stærst í Borginni

Nú styttist í sveitastjórnarkosningar og flokkarnir eru í óðaönn við að undirbúa bæði prófkjör og lista. Maskína kannaði fylgi flokkanna sem bjóða fram í Reykjavík og mun gera það reglulega fram að kosningunum í vor.

Flokkur borgarstjóra stærstur
Maskína mældi síðast fylgi stjórnmálaflokkanna í nóvember 2021 og síðan þá hefur talsverð hreyfing verið á fylginu. Samfylkingin mælist nú stærst í Borginni með rétt um 28% sem er tveimur prósentustigum hærra en hún uppskar í síðustu kosningum. Samfylking mældist þó stærri í nóvember í fyrra þegar ríflega 30% sögðust kjósa hana.

Sjálfstæðisflokkur í frjálsu falli
Sjálfstæðisflokkurinn er langt frá kjörfylgi sínu og mælist nú með um 22% fylgi í Reykjavík. En flokkurinn var stærstur eftir síðustu sveitastjórnarkosningar þegar hann uppskar tæplega 31% atkvæða.

Píratar og Vinstri græn spýta í lófana
Píratar mælast nú með mun meira fylgi en í síðustu kosningum þegar flokkurinn fékk tæplega 8% fylgi. Samkvæmt þessari könnun myndu tæplega 15% borgarbúa styðja flokkinn. Það sama má segja um Vinstri-græna sem mælast núna með 8-9% fylgi en voru aðeins með 4-5% atkvæða þegar kosið var í Reykjavík fyrir fjórum árum.

Framsókn sækir fram
Framsóknarflokkurinn, sem var minnsti flokkurinn til að ná manni inn í borgarstjórn eftir síðustu sveitastjórnarkosningar, mælist nú með 6-7% fylgi sem er um tvöfalt það sem hann fékk í kosningunum vorið 2018. Þá hlaut flokkurinn ríflega 3% atkvæða.

Viðreisn, Sósíalistaflokkur og Flokkur fólksins á svipuðu reki
Fylgi Viðreisnar mælist nú rúmlega tveimur prósentustigum undir kjörfylgi hennar þegar hún fékk rúmlega 8% atkvæða en fær nú um 6% stuðning á meðal borgarbúa skv. könnuninni. Sósíalistaflokkurinn hefur svipað fylgi og síðast, eða 5-6%, sem er um prósentustigi undir kjörfylgi þeirra. Flokkur fólksins hefur einnig svipað fylgi nú og í kosningunum og mælist nú með 5-6% fylgi sem er um einu prósentustigi meira en hann fékk vorið 2018.

Miðflokkurinn rekur lestrina
Miðflokkurinn mælist nú minnstur þeirra flokka sem náðu inn manni í borgarstjórn í síðustu kosningum en alls sögðust 3-4% styðja hann í komandi kosningum. Það er töluvert minna fylgi en flokkurinn fékk þegar gengið var til kosninga 2018 en þá hlaut hann um 6% atkvæða.

Ítarlegri niðurstöður má finna hér í pdf skýrslu.

Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 390, en þeir eru á aldrinum 18 ára og eldri og búsettir í Reykjavík. Könnunin fór fram í seinni hluta janúar og í byrjun febrúar 2022.

Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar til helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.

Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.

Aðrar fréttir