Streymisveitur njóta sífellt aukinna vinsælda á Íslandi. Maskína spurði nýverið um hvaða streymisveitur og sjónvarpsþjónustu almenningur væri með áskrift að á sínu heimili. MMR, sem nú hefur sameinast Maskínu, lagði sömu spurningu fyrir í fyrra og því gefa niðurstöðurnar skýra mynd af því hvaða streymisveitur og sjónvarpsþjónusta njóta aukinni vinsælda meðal landans og hverja dala í vinsældum.
Netflix trónir á toppnum
Eins og í fyrra voru það lang flestir svarendur sem voru með áskrift að streymisveitunni Netflix eða tæplega 78% og höfðu þær aukist um tvö prósentustig frá síðasta ári. Vinsældir Netflix eru töluvert meiri en þeirrar sjónvarpsþjónustu sem kemur næst en það er Sjónvarp Símans en rúmlega 43% aðspurðra sögðust hafa áskrift að Sjónvarpi Símans á sínu heimili.
Disney+ hástökkvarinn á milli ára
Fast á hæla Sjónvarps Símans kemur streymisveitan Disney+ en um 43% aðspurðra sögðust vera með slíka áskrift á heimili sínu. Disney+ var sú steymiveita eða sjónvarpsþjónusta sem bætti við sig flestum áskrifendum á milli ára en í fyrra sögðust aðeins 24% aðspurðra hafa aðgang að Disney+ á heimili sínu.
Áskriftum að Stöð 2 fjölgar
Áskriftum að bæði Stöð 2 og Stöð 2+ fjölgaði á milli ára og sögðust nú um 31% svarenda hafa áskrift að Stöð 2 og ríflega 28% áskrift að Stöð 2+. Áskriftum að streymisveitunni Viaplay fjölgaði einnig á milli ára og eru samkvæmt þessu um 20% íslenskra heimila með slíka áskrift. Aðrar áskriftir fjölgaði lítillega.
Ítarlegri niðurstöður má finna í hér í pdf skýrslu.
Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 952, en þeir eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 14. til 19. janúar 2022.
Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.
Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.