Samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokka hefur aldrei mælst lægra frá Alþingiskosningum 2021

Heim / Fréttir / Samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokka hefur aldrei mælst lægra frá Alþingiskosningum 2021

Nú þegar flestir landsmenn fara að koma sér aftur í rútínu eftir frábært sumar þá er um að gera að kynna sér fylgismælingu Maskínu fyrir flokkana á landsvísu í ágúst mánuði. Helstu tíðindin í þessum mánuði er að samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokkana hefur aldrei mælst lægra frá síðustu Alþingiskosningum. Samfylkingin heldur svo áfram að vera stærsti flokkur landsins.

Samfylkingin stærst
Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar er fylgi Samfylkingarinnar núna um 26% sem er örlítil hækkun frá síðustu mælingu. Flokkurinn hefur verið yfir 25% í öllum mælingum frá því í apríl á þessu ári.

Sjálfstæðisflokkurinn undir 18% í fyrsta skipti
Fylgi Sjálfstæðisflokksins hefur aldrei mælst lægra í sögu mælinga Maskínu og er nú 17,6% og er það í fyrsta sinn sem þeir mælast undir 18%. Flokkurinn heldur samt sem áður að mælast sem næst stærsti flokkur landsins.

Píratar og Miðflokkurinn hástökkvarar mánaðarins
Píratar hafa verið með í kringum 11% fylgi í könnunum Maskínu undanfarna mánuði en taka stökk upp á við um 2% í ágúst mánuði og mælast núna um 13%. Aðrir hástökkvarar er Miðflokkurinn sem hækkar einnig um 2% og mælist nú um 8%. Þetta er hærra en það sem Miðflokkurinn hefur verið að mælast með frá Alþingiskosningum.

Framsókn heldur dampi en VG í frjálsu falli
Í maí mældist flokkur forsætisráðherra með 6% fylgi sem var með því allra minnsta sem áður hafði sést og mælist hann svipað núna í ágúst eða 6,4%. Framsókn heldur hins vegar dampi og mælist með 9,2%. Flokkurinn hefur mælst í kringum 9% síðan í apríl á þessu ári.

Viðreisn fjórði stærsti flokkurinn
Viðreisn heldur sér á svipuðu róli og mælist nú með 9,5%. Fylgi Viðreisnar hefur verið frekar stöðugt á þessu ári.

Sósíalistar og Flokkur fólksins reka lestina
Fylgi Sósíalista er mjög áþekkt því sem flokkurinn uppskar í kosningum síðustu eða um 4–5%.

Samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokkanna aldrei mælst lægra frá Alþingiskosningum 2021
Allir samstarfsflokkarnir í ríkisstjórninni mælast nú töluvert undir kjörfylgi sínu í síðustu kosningum og hefur samanlagt fylgi þeirra aldrei verið lægra, um 33%.

Ítarlegri niðurstöður má finna í pdf-skýrslu hér.

Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 954 sem tóku afstöðu til flokks, en þeir eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 17. til 22. ágúst 2023.

Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.

Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.

Aðrar fréttir