Nýslegið gras er uppáhalds lykt Íslendinga

Heim / Fréttir / Nýslegið gras er uppáhalds lykt Íslendinga

Stærsta hópi Íslendinga þykir lyktin af nýslegnu grasi vera sú besta sem til er samkvæmt nýlegri könnun Maskínu. Slétt 11% þykir lyktin af nýslegnu grasi vera best, og fylgir lyktin af vanillu þar á eftir (6,7%). Þessi niðurstaða gildir að minnsta kosti þegar spurt er að sumri.Uppáhaldslykt bæði karla og kvenna er af nýslegnu grasi. Næstbesta lyktin er af vanillu að mati kvenna, en körlum þykir matarlykt sú næstbesta.

Fólki á aldrinum 30-59 ára finnst flestu lyktin af nýslegnu grasi best. Uppáhalds lykt þeirra sem eru 60 ára og eldri er blómalykt (17%) og besta lyktin að mati þeirra sem eru 18-29 ára er matarlykt (10,6%). Skera því yngstu og elstu svarendurnir sig úr hvað varðar bestu lyktina.

Lyktarsmekkur Íslendinga er nokkuð svipaður eftir búsetu. Höfuðborgarbúar, Vestlendingar/Vestfirðingar og Austfirðingar eru allir sammála því að nýslegið gras sé besta lyktin. Sunnlendingum/Reyknesingum þykir lyktin af blómum sú besta, og Norðlendingum þykir vanillulykt sú besta.

Áhugavert væri að endurtaka könnunina á öðrum árstíma og kanna hvort að besta lyktin sé árstíðarbundin. Nýslegið gras, blómalykt og gróðurlykt gæti auðveldlega verið tengt við vor og sumar og væri gaman að sjá hvað lykt Íslendingum þykir best á haustin og í kringum jól og áramót.

Svarendur voru 793 talsins, koma úr Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem er dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Svarendur eru af báðum kynjum, alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 12. til 18. júní 2019.

Skýrsluna í PDF formi má nálgast hér.

Aðrar fréttir