Fleiri Íslendingar eiga gasgrill en kolagrill

Heim / Fréttir / Fleiri Íslendingar eiga gasgrill en kolagrill

Rúmlega 73% Íslendinga eiga gasgrill skv. könnun Maskínu en á bilinu 16-17% eiga kolagrill. Fólk á aldrinum 50 til 59 ára er líklegast til þess að eiga gasgrill (80,7%), sem og kolagrill (22,9%). Þeir sem eru 18 til 29 ára eru ólíklegastir til þess að eiga gasgrill (36% segja nei) og 30 til 39 ára ólíklegastir til að eiga kolagrill (91,9% segja nei).Reykvíkingar eru ólíklegri en aðrir til að eiga gasgrill (64,9%), en Sunnlendingar og Reyknesingar líklegastir (82,1%).

Um 91% Íslendinga með heimilistekjur upp á 1.200 þúsund eða hærri eiga gasgrill, en líkur á að eiga gasgrill lækkar nokkuð með heimilistekjum. Þeir sem eru giftir/kvæntir/í sambúð eru líklegastir til að eiga gasgrill (82,5%), sem og kolagrill (18,7%), en einhleypir eru síður líklegir til að eiga gasgrill (47,3%) og kolagrill (8,0%).

Svarendur voru 793 talsins, koma úr Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem er dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Svarendur eru af báðum kynjum, alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 12. til 18. júní 2019.

Skýrsluna í PDF formi má nálgast hér.

Aðrar fréttir